Ómöguleiki að hafa eignast fíkniefnin

Aðalmeðferð saltdreifaramálsins í Landsrétti lauk í dag.
Aðalmeðferð saltdreifaramálsins í Landsrétti lauk í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Magnússon, verjandi Ólafs Ágústs Hraundal, segir að umbjóðandi sinn hafi gengist við sök sinni við upphaf saltdreifaramálsins og telur að virða beri skýlausa játningu honum til refsilækkunar. 

Þetta er meðal þess sem fram kom í málflutningsræðu Jóns fyrir Landsrétti í dag. Aðalmeðferð saltdreifaramálsins svokallaða er nú lokið og málið dómtekið. Það varðar annars vegar inn­flutn­ing am­feta­mín­vökva í miklu magni og hins veg­ar kanna­bis­rækt­un á sveita­bæn­um Hjalla­nesi við Hellu.

Ólafur Ágúst var dæmdur í tólf ára fangelsi í héraðsdómi fyr­ir stór­fellt fíkni­efna­laga­brot með því að hafa staðið að kanna­bis­rækt­un í félagi með Guðjóni Sigurðssyni, Hall­dóri Mar­geiri Ólafssyni og Geir Elí Bjarnasyni. Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni umtalsvert magn af fíkniefnum í bílskúr sem hann leigði.

Fram kom við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi að óþekktur aðili hefði fengið að geyma efnin í bílskúr Ólafs Ágústs gegn greiðslu. Fram kom í ræðu Jóns í dag að Ólafi Ágústi hefði grunað að þarna væri um fíkniefni að ræða, en hann hafi þó ekki vitað það fyrir víst.

Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Guðlaugs Agnars Guðmundssonar, og Jón Magnússon, …
Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Guðlaugs Agnars Guðmundssonar, og Jón Magnússon, verjandi Ólafs Ágústs Hraundal.

Engin fingraför á umbúðum efnanna

Fyrir héraðsdómi hafi Ólafur lýst því yfir að hann væri tilbúinn til að greina frá um hvaða aðila væri að ræða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, það er að öryggi fjölskyldu hans yrði tryggt.

Jón rakti í ræðu sinni að fjárhagsleg staða umbjóðanda síns hefði verið slæm og verðmæti fíkniefnanna í bílskúrnum svo mikil að ómögulegt hefði verið fyrir hann að eignast þau. Þá hefðu engin fingraför eða lífsýni úr Ólafi Ágústi fundist á umbúðum fíkniefnanna. Að auki lægi fyrir að hann hefði aðeins einu sinni komið í umræddan bílskúr frá því að efnunum var þar komið fyrir og þar til hann hefði verið handtekinn.

Í málflutningi sínum í gær tók Anna Barbara Andradóttir saksóknari fram að Ólafur Ágúst hefði játað að hafa haft bílskúrinn til leigu og grunað að um eitthvað ólöglegt væri að ræða en ekki kannað það frekar. Benti hún jafnframt á að röksemdir í greinargerðum sýni ekki að hann hefði verið ranglega sakfelldur í héraði.

„Það sem við þurfum að skoða er að hverju er stefnt með frelsissviptingu. Hvaða tilgangi þjóna langar frelsissviptingar gagnvart fólki sem er almennt ekki hættulegt í þjóðfélaginu? Það hlýtur alltaf að vera markmiðið að tryggja að verið sé að kveða upp réttláta dóma,“ sagði Jón.

mbl.is