Vítahringur á húsnæðismarkaði

Byggingakranar eins og skúlptúrar og fé vantar í verkin.
Byggingakranar eins og skúlptúrar og fé vantar í verkin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem við höfum talað um núna síðustu vikurnar er að vegna hækkandi vaxtastigs muni draga úr uppbyggingunni á húsnæðismarkaði,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Á upplýsingafundi Húsnæðis- og mannvirkjastofnanir í gærmorgun sagði Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri lánasviðs HMS, að vísbendingar væru uppi um að verktakar bíði með að klára þær eignir sem eru í byggingu. Byggingar séu látnar bíða á byggingarstigi fjögur eða eftir að þær eru orðnar fokheldar. Ástæðan sé m.a. hve lánsfjármagn er orðið dýrt og því veigri margir sér við því að sækja sér fjármögnun í að klára byggingarnar.

„Það kemur okkur á óvart hversu hratt þetta er að gerast. Árið 2025 koma innan við tvö þúsund íbúðir nýjar inn á markaðinn, að mati HMS. Á sama tíma hafa stjórnvöld sett það markmið að byggðar verði 35 þúsund nýjar íbúðir á áratug. Miðað við þessar tölur er það ekki að fara að gerast, nema stjórnvöld grípi á ákveðinn hátt inn í málið,“ segir Sigurður.

Dýrt fé og húsnæðisskortur

„Við erum að horfa upp á vítahring á húsnæðismarkaðnum. Það má segja að of lítið hafi verið byggt á árunum 2010-2020. Það gerði það að verkum að íbúðaverð hækkaði meira en sem nam launahækkunum og kaupmætti. Við náðum okkur aðeins á strik á allra síðustu árum. En þessar verðhækkanir leiddu samt til verðbólgu og Seðlabankinn brást við með að hækka vextina. Það hefur þau áhrif að það er dýrara að byggja íbúðir sem leiðir til þess að færri íbúðir eru byggðar. Svo ef við horfum tvö ár fram í tímann miðað við þessa stöðu, þá er fyrirsjáanlegur skortur á íbúðum sem aftur leiðir til meiri verðhækkana og þá verður erfiðara að lækka vextina. Þetta er staðan,“ segir Sigurður.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: