Deildu um taflborð einvígis aldarinnar

Heimsmeistaraeinvígið í skák fór fram í Laugardalshöll árið 1972 þar …
Heimsmeistaraeinvígið í skák fór fram í Laugardalshöll árið 1972 þar sem mættust Boris Spasskí, til vinstri, og Bobby Fischer. mbl.is/Kristinn Benediktsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað íslenskan karlmann sem seldi Bandaríkjamanni taflborð sem reyndist ekki vera borðið sem Boris Spasskí og Bobby Fischer tefldu á í einvígi aldarinnar árið 1972.

Málið varðar sölu á sérhönnuðu skákborði ásamt sérsmíðuðu og árituðu taflborði sem Sovétmaðurinn Boris Spasskí og Bandaríkjamaðurinn Bobby Fischer tefldu á 7. til 21. skákina í einvígi þeirra um heimsmeistaratitilinn í skák í Laugardalshöll árið 1972.

Kaupandinn krafðist meðal annars riftunar á kaupsamningnum og endurgreiðslu kaupverðs, þar sem ekki hefði verið um rétt taflborð að ræða.

Héraðsdómur taldi sannað að taflborðið sem maðurinn hafði keypt væri ekki sama borð og skákir sjö til 21 hefðu verið tefldar. Aftur á móti var ekki talið sýnt fram á að seljandi taflborðsins hefði vitað eða mátt vita á þeim tíma að ekki væri um rétt taflborð eða frumgerð að ræða.

Var seljandinn því sýknaður af öllum kröfum kaupandans.

mbl.is