Kúadella varð að ræktunardellu

Eymundur og Eygló búa á Vallanesi fyrir austan og reka …
Eymundur og Eygló búa á Vallanesi fyrir austan og reka þar Móður Jörð. Þau eru sífellt að þróa nýjar lífrænar vörur. mbl.is/Ásdís

Hjónin Eymundur og Eygló tóku vel á móti gestinum og buðu honum gistingu í litlu bjálkahúsi sem nefnist Lísuhús og það væsti sannarlega ekki um blaðamann þar. Það var líkt og að vera staddur í miðri bíómynd sem gerist einhvers staðar í Skandinavíu, að dvelja þarna í krúttlegum kofa í skóginum.

En áður en blaðamaður lagðist þar til svefns, buðu bændurnir lífrænu honum til sætis á litla veitingastaðnum, Asparhúsinu, til að spjalla um lífið og tilveruna í Vallanesi. Og ekki var verra að fá þar dásamlegan kvöldmat, en þar er boðið upp á grænmetisrétti sem eru hver öðrum betri. Maturinn er að sjálfsögðu lífrænn og beint frá býli, unnin og eldaður frá grunni. Enginn vegasjoppumatur hér!

Ætlaði alltaf að verða kúabóndi

Eygló brá sér inn í eldhús að athuga hvaða góðgæti þar leyndist og fékk því Eymundur fyrstur orðið, enda kann hann söguna alla þar sem hann hefur búið á jörðinni öll sín fullorðinsár. Sagan hófst árið 1979 þegar hinn 23 ára gamli Eymundur gerðist kúabóndi í Vallanesi. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar.

„Ég ætlaði alltaf að verða kúabóndi, en þegar ég byrjaði hafði ekki verið bóndi hér í tuttugu ár og hér engin tún eða tré og hvorki vatn né rafmagn í gamla fjósinu,“ segir Eymundur og útskýrir að aðeins hafi þar staðið lúið gamalt fjós, sem hann svo byggði mjólkurhús við.

„Það var svo settur kvóti á mjólkurframleiðslu og ég lokast af með sextíu þúsund lítra. En við það að rækta upp jörðina, sem hafði verið alveg óræktuð, kviknaði ræktunarbakterían sem reyndist svo sterkari kúadellunni.“

Eymundur er sannkallaður sveitapiltur og á hann ættir að rekja austur.

„Ég segi oft að ég hafi slysast til að fæðast í Reykjavík. Pabbi er frá Eskifirði og mamma úr Skriðdal en þau fluttu suður eins og ungt fólk gerði gjarnan. En ég fór í sveit til ömmu í Skriðdalnum frá því ég gat gengið og ég var bara sex eða sjö þegar ég ákvað að verða bóndi,“ segir hann og segist tvítugur hafa farið erlendis í tvö ár að vinna á kúabúum, í Englandi, Noregi og Svíþjóð.

„Ég var í skóla lífsins að undirbúa mig undir að verða bóndi. Ég flutti svo með fyrrverandi konu minni Kristbjörgu hingað austur í Egilsstaði og við vorum í eitt og hálft ár að leita að jörð. Einhver stakk upp á Vallanesi og ég sagði bara: „Vallanes? Það er ekkert í Vallanesi!“ Ég var auðvitað að leita að jörð með túnum og fjósi, en sem betur fer endaði ég hér og sé ekki eftir því,“ segir Eymundur og segist hafa rekið kúabú í áratug og nautakjöt framleiddi hann fimm árum lengur.

„Við byrjuðum að rækta lífrænt grænmeti fyrir heimilið og þetta fór að spyrjast út. Fólk hringdi og spurði hvort það gæti keypt af okkur. Þegar kúabúskapurinn var orðinn aðþrengdur fundum við að það var markaður fyrir grænmeti og tókum sénsinn. Við ræktuðum sumarblóm og svo hefðbundið grænmeti, eins og kartöflur, grænkál og hvítkál. Þetta er auðvitað orðið miklu fjölbreyttara í dag,“ segir hann og segir að þau hafi lagt áherslu frá upphafi á að hafa allt lífrænt ræktað.

Á jörðinni eru mörg gróðurhús og ætla hjónin nú að …
Á jörðinni eru mörg gróðurhús og ætla hjónin nú að fara að rækta lífræna tómata í jarðvegi sem þau segja miklu bragðbetri.

„Ég hafði aldrei áður kynnst lífrænu en þegar ég smakkaði þetta og skildi hvað lífræn ræktun er heilsusamlegri fyrir jörðina og neytendur, féll ég alveg fyrir þessu, alveg jafnmikið og Kristbjörg sem innleiddi þetta hérna. Það var ekki litið tilbaka.“

Kom þjóðinni á bygg

Eymundur hóf fljótlega kornrækt; og bjó til vöruna Bankabygg sem hann vildi endilega kynna fyrir Íslendingum og koma í hillur matvöruverslana.

„Það kviknaði í mér markaðsmaður sem vildi koma þjóðinni á bygg,“ segir hann og segist hafa farið um aldamótin 2000 suður til Reykjavíkur að kynna bygg, en um sama leyti skildu þau Kristbjörg.

„Ég lagðist þá í víking og eyddi miklum tíma í Reykjavík á veturna þar sem ég var með kynningar að gefa fólki að smakka rétti úr byggi og að búa til þann markað. Það er í dag uppistaðan í okkar ræktun en við erum árlega með bygg á um 35 hekturum,“ segir Eymundur.

„Móðir Jörð byrjaði sem vörumerki á tíunda áratugnum og það eru ekki mörg ár síðan það varð að fyrirtækinu Móðir Jörð. Í þá daga var ekki venjan að bændur væru að selja vörur sínar undir vörumerki; það þótti rosalega skrítið,“ segir hann og segir nú fjölmargar vörur seldar í dag undir því vörumerki og þeim fer fjölgandi.

Vörunar frá Móður Jörð eru búnar að festa sig í …
Vörunar frá Móður Jörð eru búnar að festa sig í sessi hjá þjóðinni.

„Eftir að Eygló kemur inn í líf mitt 2008, og flytur hingað 2010, fer allt á fullt í vöruþróun,“ segir Eymundur, en þau hjón sáust fyrst á matarsýningu í Smáranum árið 2004.

„Þá var litli horaði bóndinn með lítinn bás og hún var að vinna fyrir Karl K. Karlsson heildverslun í innflutningi á ítölskum mat. Hún var í risabás á tveimur hæðum með parketi,“ segir hann og brosir.

„Vinkona hennar hafði einhvern tímann spurt hana hvort hún hefði smakkað kartöflurnar frá Móður Jörð, og það er það fyrsta sem hún vissi af því fyrirtæki. Við spjölluðum á sýningunni og hún kynnti mig fyrir „Slow Food“ og sýndi mér básinn. Ég hafði skrifað í dagbókina þennan dag að básinn hafi verið ágætur en mér hafi litist betur á hana,“ segir hann sposkur.

Eygló var með bakgrunn í matvælaiðnaði þegar hún kynntist Eymundi. …
Eygló var með bakgrunn í matvælaiðnaði þegar hún kynntist Eymundi. Hún flutti svo til hans árið 2010 og hafa þau unnið saman síðan.

„Þarna var fyrsta fræinu sáð. En svo fór hún að vinna á Ítalíu í þrjú ár, en kom í heimsókn 2008 í Vallanes, en ég segi alltaf að ég veiði best í mínu umhverfi eins og önnur dýr. Ég hefði aldrei náð í hana í Reykjavík,“ segir Eymundur, en í þeim töluðu orðum mætir Eygló til okkar, heyrir síðustu athugasemdina og hlær.

„Hún var auðvitað að leita sér að lífrænum bónda til að geta fengið tækifæri til að framleiða lífrænar vörur,“ segir hann kíminn.

Að vinna við íslenskt hráefni

Eygló sest hjá okkur og tekur undir orð Eymundar.

„Það er staðreynd að mig var farið að langa til að vinna við íslenskt hráefni,“ segir Eygló, en hún hafði eftir viðskiptafræðinám í háskólanum farið að vinna í matvælabransanum.

„Ég var í áratug hjá Karli K. Karlsyni og sá um innflutning matvæla og vína, meðal annars frá Ítalíu og Spáni. Ég var með mikil tengsl við Ítalíu, sem leiddi til þess að ég bjó þar og vann í þrjú ár, en ég hafði líka kynnst Ítalíu í gegnum Slow Food-hreyfinguna, sem á uppruna sinn á Ítalíu. Ég heillaðist af þessum félagsskap og við heimkomuna árið 2000 stofnaði ég ásamt fleirum fyrstu Slow food-deildina á Íslandi,“ segir Eygló og útskýrir að Slow Food hafi upphaflega verið stofnað sem andsvar við „fast food“-byltingunni.

„Það var allt orðið skyndiframleitt og þessi félagskapur reynir að snúa því við. Með tímanum hefur hreyfingin líka snúist um umhverfið og pólítíkina varðandi mat. Það var eiginlega með þeim gleraugum sem ég horfði á Eymund þarna, þegar hann stóð í básnum sínum árið 2004,“ segir Eygló og nefnir að Slow Food beiti sér fyrir sjálfbærri og hreinni matvælaframleiðslu. 

„Ég var á kafi í þessu og fór svo til Ítalíu, ekki síst vegna áhuga míns á mat og þessari hugmyndafræði. Ég bý líka að því að hafa séð það í návígi hvernig Ítalir hugsa um og framleiða mat, sem er þeirra stærsta atvinnugrein.“

Og þú varst búin að heyra um kartöflunar frá Móður Jörð?

Eygló skellihlær. „Þú varst búin að heyra af því? Jú, það var örugglega tuttugu árum áður en við kynnumst!“

„Vinkonan sagði þær vera bestu kartöflur í heimi,“ skýtur Eymundur inn í.

Ítarlegt viðtal er við Eygló og Eymund í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: