Samkomulag um þinglok: Fjármálaáætlunin afgreidd

Alþingishúsið. Senn munu alþingismenn fara í sumarleyfi en hátt í …
Alþingishúsið. Senn munu alþingismenn fara í sumarleyfi en hátt í 30 mál verða afgreidd fyrir það. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samið var um þinglok Alþingis í dag en í samkomulaginu felst meðal annars að fjármálaáætlun fyrir árin 2024 til 2028 ásamt tengdum málum verði afgreidd áður en að þingi verður frestað á föstudaginn þegar að alþingismenn fara í sumarleyfi. 

Þetta staðfestir Óli Björn Kárason, þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, í samtali við mbl.is.

Sam­kvæmt starfs­áætl­un Alþing­is verður þingi frestað á föstu­dag en mörg mál bíða enn af­greiðslu. Venju sam­kvæmt semja for­menn þing­flokkanna um hvaða mál eru afgreidd fyrir þinglok og var gert heild­ar­sam­komu­lag á milli þingflokkanna í dag.

Um 30 mál afgreidd fyrir þinglok

Aðspurður segir Óli Björn að á þriðja tug mála verði vonandi afgreidd fyrir þinglok.

„Megin áhersla stjórnarflokkanna er fjármálaáætlunin sem verður að afgreiða og mál sem tengjast henni. Þá eru það breytingar er varða virðisaukaskatt, varaflugvallargjald og síðan eru mál sem var mælt fyrir í dag eins og hækkun á greiðslum almannatrygginga og á morgun mun forsætisráðherra mæla fyrir frumvarpi sem tryggir það að laun kjörinna fulltrúa og embættismanna hækki ekki meira en 2,5 prósent,“ segir Óli Björn í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir Óli Björn að aðgerðirnar gegn verðbólgunni sem voru kynntar í gær komi ekki til með að tefja þinglok né fjármálaáætlunina. 

Önnur mál sem verða afgreidd fyrir þinglok að sögn Óla Björns eru til dæmis fjölmiðlafrumvarpið og frumvarp Willums Þórs Þórssonar um valkvæða hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna hjá hinu opinbera. Í því felst að heilbrigðisstarfsmenn geta valið að halda áfram að vinna þegar þeir eru komnir á ellilífeyrisaldur.

„Það sem er gleðilegt er að við eru að auka sveigjanleika hvað varðar dvalar- og atvinnuleyfi fyrir útlendinga. Það sem stendur kannski mörgum mjög nálægt er að hér er verið að samþykkja ný lög um tæknifrjóvgun og notkun kynfruma og fósturvísa sem ég held að muni skipta mjög marga einstaklinga miklu máli.“

Óli Björn segir að önnur stór mál þurfi að bíða fram á haust þegar þing kemur saman aftur. Eitt af þeim málum er frum­varp Jóns Gunn­ars­son­ar dóms­málaráðherra um breyt­ing­ar á lög­reglu­lög­um.

Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir þau í flokknum vera að sumu leyti sátt með samkomulagið. 

„Það eru mál frá ríkisstjórninni sem við hefðum talið eðlilegt og gott að klára en ríkisstjórnin er væntanlega í einhverjum innbyrðis slag og samdi þetta svolítið sjálft út af borðinu,“ segir hann.

Einnig mun frumvarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur utanríkisráðherra um bókun 35 við EES-samninginn vera tekið upp að nýju í haust. Bók­un­ 35 snýr að því að þegar rétt­ar­regl­ur EES-samn­ings­ins rek­ast á önn­ur sett ís­lensk lög en stjórn­ar­skrá Íslands munu reglur EES (Evrópska efnahagssvæðið) gilda.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, fagnar því að að bókun 35 sitji á hakanum fram á haustið en hann segir í samtali við mbl.is að þau í Miðflokknum séu býsna sátt með samkomulagið. 

Logi ekki jafn ánægður og Bergþór

Jafnframt kveðst hann ánægður með að þings­álykt­un­ar­til­laga Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra um aðgerðaáætl­un gegn hat­ursorðræðu þurfi að bíða fram á haustið.

„Við lögðum auðvitað mesta áherslu á bókun 35 og hatursorðræðuna og erum mjög ánægðir að þau mál klárist ekki. Við erum himinlifandi með að bókun 35 hafi verið frestað en reiknum með að þessi orrusta verði tekin upp aftur í haust.“

Logi Einarsson deilir ekki ánægju Bergþórs og segir það hafa verið brýnt að klára bókun 35. Hann tekur að auki fram að Samfylkingin hafi stutt dyggilega við þingsályktunartillöguna um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu og að þingmenn flokksins hefðu viljað sjá það klárast.

Jafnframt mun svokallað „grásleppufrumvarp“ Svandísar Svavarsdóttur mat­vælaráðherra ekki vera lagt fyrir þingið að svo stöddu. Með frum­varp­inu er lagt til að afla­marks­stjórn verði tek­in upp við veiðar á grá­sleppu en fram til þessa hef­ur stjórn veiða á grá­sleppu verið háð rétti til veiða og leyf­um frá Fiski­stofu.

Óli Björn segir að ríkisstjórnin hefði gjarnan viljað klára þessi mál á þessu þingári en að eðli málsins samkvæmt þurfi þau að bíða fram á haustið. „Auðvitað er það þannig að við göngum út frá því að klára þingið á þessum tíma.“

Óli Björn segir að það vel geta verið að þinglok fari fram samkvæmt starfsáætlun en vegna tæknilegra ástæðna gæti þinghald dregist fram á laugardaginn. 

„Það stefnir í að í fyrsta skiptið í mjög mörg ár verði þingi frestað í samræmi við starfsáætlun. Ekki að það sé sérstakt markmið en áhugavert að það gerist í ár,“ segir Bergþór Ólason.

Óli Björn segir að það hafi gengið vel að ná samkomulagi á milli flokkanna og tekur fram að það sé þökk þess að samskiptin á milli flokka ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðu flokkanna hafi verið mjög góð á síðustu vikum.

Bergþór tekur undir orð Óla Björns og segist ánægður með skynsamlega lendingu á milli flokkanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert