Vonar að fernumálið skaði ekki heildarverkefnið

Elva Rakel Jónsdóttir.
Elva Rakel Jónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurð um það hvort umræða síðustu vikna um endurvinnslu hafi haft neikvæð áhrif á viðhorf Íslendinga til endurvinnslu segir Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri á sviði loftslagsmála og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun, að það megi vera.

„Vonandi ekki samt. Það koma alltaf upp einhver atvik af og til en sem betur fer gengur alltaf allt vel að miklum bróðurhluta,“ segir Elva Rakel í samtali við mbl.is.

„Það er mjög leitt þegar koma upp svona frávik. Það hefur klárlega ekki áhrif á heildarverkefnið en vonandi hefur það ekki áhrif á trú manna á mikilvægi þess að við verðum að koma á hringrásarhagkerfinu sem þýðir að við verðum að halda áfram að flokka og draga úr myndun úrgangs,“ segir hún.

Munar um lífræna úrganginn

Elva Rakel kynnti í dag fyrir hönd verkefnisins Allan hringinn þær breyt­ing­ar sem eru framund­an í úr­gangs­mál­um heim­ila og vinnustaða í kjöl­far hringrás­ar­lag­anna sem tóku gildi um ára­mót­in.

„Það er verið að gera kröfur um það að það verði sérsöfnun við húsvegg á lífrænum úrgangi bæði hjá fyrirtækjum og lífrænum úrgangi. Svo er það sérsöfnun í pappír annars vegar og plast hins vegar, þannig að þetta verði aðgreint. Svo er líka verið að auka flokkun á grenndarstöðum, til dæmis með hluti eins og gler og textíl og fleira,“ segir Elva Rakel.

Hún segir að þessar aðgerðir geti skilað töluverðum árangri meðal annars vegna þess að lífrænn úrgangur sé stór partur af því sem fer í blandaðan úrgang í dag.

„Það er þungur úrgangur en við vitum ekki nákvæmlega hversu mikið það verður en það gæti skilað okkur töluvert miklu,“ segir Elva Rakel.

Læra af reynslu Evrópubúa

Hún segir að reynslan í Evrópu sýni það að því nær sem flokkun er færð íbúum því betri árangur næst.

„Við erum að vona að með þessari auknu þjónustu að geta flokkað meira við húsvegg, þá verði flokkunin líka betri. Það er ekki víst að það geri að sjálfu sér, þess vegna verðum við líka að vekja athygli á þessu,“ segir Elva Rakel.

Elva Rakel Jónsdóttir kynnti í dag breyt­ing­ar sem eru framund­an …
Elva Rakel Jónsdóttir kynnti í dag breyt­ing­ar sem eru framund­an í úr­gangs­mál­um heim­ila og vinnustaða. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is