Meirihlutinn vilji ekki ræða málið

Kjartan Magnússon - borgarfulltrúi - Reykjavík - Sjálfstæðisflokkurinn
Kjartan Magnússon - borgarfulltrúi - Reykjavík - Sjálfstæðisflokkurinn Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins vill að borgarstjórn skori á Alþingi og ríkisstjórn að sjá til þess að framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi, frá Vallá að Hvalfjarðargöngum, verði boðin út sem fyrst.

Tillagan var fyrst sett á dagskrá borgarstjórnarfundar 16. maí en þá ákvað meirihlutinn að taka málið af dagskrá. Á fundinum í gær var tillagan lögð fyrir að nýju en var þá vísað frá með atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.

Í tillögu Sjálfstæðisflokksins segir: „Um er að ræða eitt brýnasta verkefni í þágu umferðaröryggis á höfuðborgarsvæðinu. Umræddur vegarkafli er hættulegur en breikkun vegarins og aðskilnaður akreina mun draga verulega úr slysahættu á honum.“

Fimm látið lífið á tíu árum

Í ræðu Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, á borgarstjórnarfundi í gær kom fram að á tímabilinu 2012-2022 hafi fimm manns látið lífið á umræddum vegkafla í fjórum banaslysum. Að auki hafi samtals sautján manns slasast alvarlega í sjö slysum. Þá hafi 37 slys orðið til viðbótar með meiðslum, áverkum og áföllum.

Svo mörg slys og alvarleg slys á þessum vegkafla eru algerlega óviðunandi. Eðlilegt er að borgarstjórn hafi skoðun á málinu og knýi á um að löngu tímabærum umferðaröryggisaðgerðum á vegkaflanum verði ekki frestað frekar,“ sagði Kjartan.

Tillögunni var vísað frá með atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata …
Tillögunni var vísað frá með atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umfangsmikil vinna átt sér stað

Kjartan telur það vera með ólíkindum að meirihluti borgarstjórnar vilji ekki ræða málið í borgarstjórn.

„Með ólíkindum er að borgarstjórnarmeirihlutinn vilji ekki ræða málið hér í borgarstjórn heldur kjósi að vísa því frá, nánast umræðulaust. Eðlilegt er að borgarstjórn fjalli um svo mikilvægt mál, sem snertir brýnar úrbætur í umferðaröryggismálum á vegkafla, sem er allur innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Slíkt tómlæti meirihlutans gagnvart slíkum úrbótum er með ólíkindum.

Umfangsmikil vinna hefur átt sér stað innan borgarkerfisins varðandi skipulagsþátt málsins þar sem samræma hefur þurft mörg sjónarmið með umferðaröryggi að leiðarljósi. Eftir alla þá vinnu virðist meirihlutinn vera áhugalaus um þessa brýnu framkvæmd. Að minnsta kosti vill hann ekki knýja á um að henni verði lokið sem fyrst,“ sagði Kjartan á fundi borgarstjórnar í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert