Kóraskóli stofnaður í Kópavogi

Skólastjórnendur skólanna tveggja ásamt Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs og stjórnendum …
Skólastjórnendur skólanna tveggja ásamt Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs og stjórnendum grunnskóladeildar. Ljósmynd/Aðsend

Nýr skóli tekur til starfa í Kópavogi á næsta skólaári. Kóraskóli er heitið á nýja skólanum sem varð til eftir að ákveðið var í vetur að skipta Hörðuvallaskóla upp í tvo skóla.

Skólinn er til húsa í Vallakór 12-14, sem hýsir einnig íþróttahúsið Kórinn. Starfsemi unglingadeildar Hörðuvallaskóla var í húsinu sem hefur undanfarin ár verið innréttað til að mæta þörfum hins nýja skóla. Í vetur var lokið við gera kennslustofur á neðri hæð hússins auk þess sem félagsmiðstöðin Kúlan fékk nýja aðstöðu.

Nemendur völdu nafn á skólann

Um 260 nemendur verða í nýjum skóla sem verður stofnaður formlega 1. ágúst og tekur til starfa undir nýju heitir þegar næsta skólaár hefst, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Nemendur skólans komu með tillögur að nafni á nýja skólann og kusu svo á milli tveggja nafna sem skólaráð valdi úr innsendum tillögum nemenda.

Hörðuvallaskóli verður áfram í núverandi húsnæði að Baugakór.

Skólastjórnendur ráðnir til eins árs

Skólastjóri Kóraskóla verður Arnór Heiðarsson fráfarandi aðstoðarskólastjóri Hólabrekkuskóla og aðstoðarskólastjóri hins nýja skóla verður Inga Fjóla Sigurðardóttir deildarstjóri elsta stigs Hörðuvallaskóla.

Nína Ýr Nielsen skólastjóri Hörðuvallaskóli verður leyst af hólmi en Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri skólans. Sigrún hefur leyst af sem annar tveggja skólastjóra Hörðuvallaskóla frá því í nóvember á síðasta ári. Aðstoðarskólastjóri Hörðuvallaskóla verður þá Íris Björk Eysteinsdóttir sem verið hefur deildarstjóri í skólanum frá því á síðasta ári.

Allar ráðningarnar eru tímabundnar til eins árs á meðan aðlögun milli skólanna tveggja stendur yfir og allar stöðurnar verða auglýstar til frambúðar í upphafi nýs árs.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert