Tekur ekki undir hugmynd Samtaka iðnaðarins

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Fyrst og mikilvægast er að ná niður verðbólgunni þannig að vaxtarstigið fari niður. Þannig getur byggingageirinn komist aftur á eðlilegt ról,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í samtali við mbl.is. Hann tekur ekki undir hugmyndir Samtaka iðnaðarins að víkja þurfi frá áformum um lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatt vegna byggingaframkvæmda. 

Stefnir í mikinn byggingaskort

Samtök iðnaðarins hafa komið með tillögu þess efnis að endurskoða áformaða lækkun stjórnvalda á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna fasteignaframkvæmda. Sigurður segir það ekki koma til greina. 

Tekur þú undir þessa hugmynd hjá SI?

„Nei, vegna þess að aðalatriðið er að ná niður verðbólgunni. Við verðum að minnka þensluna og verðum við þar af leiðandi að sýna aðhald. Það er skynsamlegt að ríkið dragi saman seglin hvað varðar opinberar ívilnanir. Þó þetta hafi vissulega neikvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn núna þá er aðalmálið að ná niður verðbólgunni,“ segir hann.

Samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins þá er útlit er fyr­ir að á næstu þrem­ur árum verði full­kláraðar íbúðir sem fari á markað 4.360 færri en áætluð þörf sem er á hús­næðismarkaði.

Vill flýta niðursveiflunni og komast svo aftur af stað

Spurður út í mögulegan íbúðabyggingaskort upp á 4.360 íbúðir næstu þriggja ára kveður hann að aðgerðir ríkisstjórnar muni flýta niðursveiflunni og að byggingageirinn komist þá aftur af stað.

„Við erum að vonast til að með aðgerðum okkar að þá verði niðursveiflan styttri og markaðurinn komist fyrr í gang en ella. Fyrst og mikilvægast er að ná niður verðbólgunni þannig að vaxtarstigið fari niður. Þannig getur byggingageirinn komist aftur á eðlilegt ról,“ segir Sigurður og nefnir að fyrirhugaðar byggingar hjá hinu opinbera séu komnar á ís í bili.

„Við erum líka einbeita okkur að því að draga úr þenslu með því til dæmis að taka aðeins til hliðar opinberar byggingar hér á höfuðborgarsvæðinu en um leið að setja aukinn kraft í opinberan stuðning við að byggja almennar íbúðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert