Útiloka hærri tilboð og íhuga málsókn

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður SÍS segir málsókn í spilunum ef …
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður SÍS segir málsókn í spilunum ef ekki verður orðið við áskorun SÍS.

„Kröfurnar eru þannig að við sem ábyrgir rekstaraðilar sveitafélaga getum ekki orðið við þeim. En ég eins og fleiri vonum að ríkissáttasemjari geti hjálpað deiluaðilum að ná saman og vinna að lausn. Þetta er búið að taka of langan tíma nú þegar,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður SÍS. mbl.is ræddi við hana eftir fund SÍS með sveitarfélögum í morgun. 

Geta ekki boðið hærri laun 

Hið opinbera setti 8% launahækkunarviðmið en að sögn Heiðu stendur BSRB um 11% hækkun til boða. Hefur það útspil „ekki vakið hrifningu sumra“ að sögn Heiðu. Engu að síður hefur það ekki dugað til. 

„Við getum ekki farið lengra. Við getum ekki boðið BSRB hærri laun en öðrum í sambærilegum störfum. Það er útilokað,“ segir Heiða. 

Farið var yfir þessi sjónarmið auk fleiri hluta á fundinum. „Það eru allir sammála um þessa línu þó þetta sé erfið staða. Auðvitað viljum við borga laun sem fólk sé ánægt með en þetta er erfið staða,“ segir Heiða. 

Óheppilegar auglýsingar 

Á fundinum var einnig samþykkt áskorun þess efnis að gefa BSRB færi til 16 í dag að taka niður auglýsingar í nafni sveitarfélaga. Heiða Björg segir SÍS íhuga málsókn ef ekki verður orðið við áskoruninni. 

BSRB hefur auglýst í nafni sveitarfélaga.
BSRB hefur auglýst í nafni sveitarfélaga. mbl.is/Arnþór

„Við teljum þetta ólöglegt og ekki til þess fallið að ná einhverjum sáttahug. Þetta er engum til framdráttar. Hvorki BSRB, sveitarfélögunum eða því starfsfólki sem vinnur hjá sveitarfélögunum. Þetta eru óheppilegar auglýsingar. Við höfum reynt að horfa framhjá þessu en nú finn ég að fólk er ekki tilbúið til þess lengur,“ segir Heiða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina