Ekki hægt að bjarga fólki í sjálfheldu

Eina leiðin er að sækja fólk úr þyrlu sem jafnvel …
Eina leiðin er að sækja fólk úr þyrlu sem jafnvel er ekki hægt. mbl.is/Árni Sæberg

Sinna þurfti sjö tilvikum þar sem fólk hafði orðið fyrir hnjaski eða hreinlega örmagnast á gosstöðvunum í gær og í nótt að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Sennilega voru á þriðja þúsund manns sem fóru að gosstöðvunum í gær og í nótt. Jón segir það hafa verið um klukkan þrjú í nótt sem göngustraumurinn fór að snúast við, frá gosstöðvunum. Þá hafi fólk verið alls konar búið til göngu. 

„Ef það dettur niður þá er það bara brunnið“

Björgunarsveitum gekk vel að koma fólki til aðstoðar þrátt fyrir að það hafi ekki endilega farið stikaða leið eða að útsýnisstaðnum segir Jón.

„Með því að fara að útsýnisstaðnum ertu búinn að lyfta þér upp úr mesta reyknum, það er talsverður reykur frá gróðureldum, en fólk vill fara nálægt,“ segir Jón. 

„Það er ljóst að ef fólk fer inn á hraun og lendir í vandræðum, þá er enginn að koma sömu leið til þess að bjarga því. Eina leiðin er að sækja fólk úr þyrlu, sem jafnvel er ekki hægt, þannig er nánast ómögulegt að bjarga fólki sem fer inn á nýtt hraun og lendir í sjálfheldu, tala nú ekki um ef það dettur niður, þá er það bara brunnið,“ segir Jón. 

Líkja óróanum við hjartslátt

Sex hópar björgunarsveitarmanna hafa verið á svæðinu hverju sinni undanfarnar tvær nætur, bæði að aðstoða við lokunarpósta og á svæðinu sjálfu.

„Það áhugaverðasta sem næturvaktin skráði hjá sér var að það voru nokkrir sem komu til björgunarsveita og tilkynntu að þeir fyndu eins og bank upp úr jörðinni, einn lýsti þessu eins og hjartslætti,“ segir Jón. 

Jón segist þó ekki klár á því hvort fólk hafi verið að upplifa gosóróa eða skjálfta eða hvort þetta séu bara eðlilegar jarðhræringar á svæðinu, en „þetta var niðri á hraunbreiðunni“, segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert