„Ég skil ekki hvað maðurinn er að fara“

Sigurður segist ekki hafa brotið lög.
Sigurður segist ekki hafa brotið lög. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Þórðarson segist ekki hafa brotið lög þegar hann sendi greinargerð sína til annarra en embættis ríkisendurskoðanda árið 2018. Greinargerðina sendi hann til Alþing­is, fjár­málaráðuneyt­is­ins, Seðlabanka Íslands, Umboðsmanns Alþing­is, for­seta Alþing­is og embætt­is rík­is­end­ur­skoðanda.

Sig­urður var sett­ur rík­is­end­ur­skoðandi til að end­ur­skoða Lind­ar­hvol ehf. og hafa eft­ir­lit með fram­kvæmd samn­ings milli Lind­ar­hvols ehf. og fjár­málaráðuneyt­is­ins þar sem þáver­andi rík­is­end­ur­skoðandi, Sveinn Ara­son, var van­hæf­ur til þess vegna fjöl­skyldu­tengsla við stjórn­ar­mann Lind­ar­hvols ehf. Gegndi Sig­urður þessu hlut­verki frá 29. apríl 2016 til sum­ars 2018.

Í samtali við mbl.is í dag sagði Guð­mund­ur Björg­vin Helga­son rík­is­end­ur­skoð­andi Sigurð hafa brotið málsmeðferðarreglur ríkisendurskoðanda með því að dreifa greinargerðinni. Kveðið er á um reglurnar í lögum um rík­is­end­ur­skoðanda og end­ur­skoðun rík­is­reikn­inga.

Hann gagnrýnir einnig að Sigurður hafi beðist lausnar frá forseta Alþingis eftir að nýr ríkisendurskoðandi, Skúli Eggert Þórðarson, hafi verið tekinn við. Telur Guðmundur að um leið og Skúli hafi tekið við af Sveini hafi Sigurður ekki gegnt embætti setts ríkisendurskoðanda.

Með allt annan skilning á hlutverkinu

Í samtali við mbl.is segir Sigurður að þar sem hann hafi verið skipaður af forseta Alþingis hafi verið rétt að senda honum greinargerðina og biðjast lausnar frá honum.

„Ég er með allt annan skilning á mínu hlutverki. Ég var skipaður af forseta Alþingis, ekki af ríkisendurskoðanda, enda var meginástæða fyrir því að settur var ríkisendurskoðandi að koma málinu frá ríkisendurskoðun,“ segir Sigurður.

Sjónarmið mótaðila sett fram

14. grein laga um rík­is­end­ur­skoðanda og end­ur­skoðun rík­is­reikn­inga kveður á um að senda skuli þeim sem sætir athugun eða eftirliti ríkisendurskoðanda drög að skýrslum og greinargerðum til umsagnar. 

Í samtali við mbl.is sagði Guðmundur grein­ar­gerð aldrei hafa verið senda til um­sagn­ar eða and­mæla þeirra sem að hún fjall­ar um. „Það er grund­vall­ar­skil­yrði í okk­ar málsmeðferð að við birt­um ekki skýrsl­ur eða gögn frá okk­ur öðru­vísi en að gæta að því,“ sagði Guðmundur.

Sigurður segir stóran hluta greinargerðar sinnar fjalla um andmæli mótaðila, því sé ekki um lögbrot að ræða:

„Ef að þú berð saman greinargerð mína og skýrslu ríkisendurskoðunar þá sérðu það í skýrslu ríkisendurskoðanda að þetta með andmælin er á einni og hálfri eða einni blaðsíðu. Ef að þú ferð í greinargerð mína þá sérðu það að flest þau atriði sem ég fjalla um geri ég með skriflegum athugasemdum til mótaðilans, hann svarar mér og ég set sjónarmið hans fram í skýrslunni,“ segir Sigurður og bætir við:

„Ég er búinn að vinna við þetta í sextán eða tuttugu ár. Ég kann þetta alveg, ég þarf enga aðstoð frá manninum.“

Hafi ekki farið út fyrir umboð sitt

Guðmundur segir Sigurð einnig hafa farið út fyrir umboð sitt, meðal annars með því að leita upp­lýs­inga um meðferð stöðug­leika­eigna. 

Sigurður neitar því: „Ég bara næ þessu ekki. Ég skil ekki hvað maðurinn er að fara. Ég var bara að skoða þetta tiltekna verkefni sem ég fékk þarna,“ og bætir við:

„Ég meina um hvað fjallaði þetta? Það var meðhöndlun á stöðugleikaframlögunum þrotabúa bankanna sem að ríkissjóður eignaðist. Ég talaði við slitabúin og við Seðlabankann. Þetta voru aðilar sem að komu að þessu ferli. Átti ég bara að tala við Lindarhvol? Menn verða nú aðeins að átta sig á því hvað felst í því að vera endurskoðandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert