Ólafsfjarðarmálið til héraðssaksóknara

Manndrápsmálið á Ólafsfirði hefur verið sent áfram til embættis héraðssaksóknara.
Manndrápsmálið á Ólafsfirði hefur verið sent áfram til embættis héraðssaksóknara. Samsett mynd

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur lokið rannsókn á manndrápi sem átti sér stað á Ólafsfirði í október á síðasta ári. Málið hefur verið sent áfram til embættis héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um hvort ákært verði í málinu.

Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is.

Þrjú látin sæta gæsluvarðhaldi

Aðfaranótt 3. október var óskað eftir lögregluaðstoð að húsi á Ólafsfirði þar sem maður hafði verið stunginn með eggvopni. Maðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi eftir árangurslausar endurlífgunartilraunir og í kjölfarið voru fjórar manneskjur handteknar með réttarstöðu sakborninga í málinu.

Þrjú voru látin sæta gæsluvarðhaldi, eiginkona hins látna, vinur hennar og húsráðandi á staðnum. Öll höfðu þau hlotið dóma, ýmist fyrir ofbeldisbrot eða vörslu og smygl á fíkniefnum. Tveir sakborninganna voru látnir lausir á byrjunarstigi rannsóknar og sá grunaði í málinu einnig um einum mánuði síðar.

Vitnisburður stemmir ekki við gögn málsins

Við rannsókn málsins sviðsetti lögregla meðal annars atburðinn með hjálp sakborningsins en í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir honum kom fram að gögn málsins bæru með sér að hinn látni hefði veist að hinum grunaða og stungið hann með hníf í andlit og læri.

Þá hafi hinn grunaði náð yfirhöndinni í átökunum og veitt hinum látna stungusár sem drógu hann til dauða.

Hinn grunaði hélt því fram að hinn látni hefði fallið á hnífinn í átökunum.

„Eðlilegt að málið fari í forgang“

Kolbrún segir ekki hægt að segja neitt til um hvenær ákvörðun liggi fyrir en að eðlilegt sé að málið fari í forgang.

„Við reynum auðvitað að flýta svona málum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert