Varnargarður rofinn í Skaftárdal

Skaftárhlaup hófst í dag.
Skaftárhlaup hófst í dag. Ljósmynd/Auður Guðbjörnsdóttir

„Við urðum vör við þetta bara strax um sjöleytið í morgun að það hafi greinilega vaxið hratt í ánni í nótt,“ segir Auður Guðbjörnsdóttir, bóndi á Búlandi við Skaftá, í samtali við mbl.is en jökulhlaup er hafið í ánni. 

Auður segir að um níuleytið hafi brennisteinslyktin ekki leynt sér við ána, hún hafi verið orðin kolmórauð og vaxið talsvert. 

Hún nefnir að varnargarður við vestari brúnna yfir ána í Skaftárdal sé rofinn og því flæði þar yfir veginn. 

Auður segir að um níuleytið hafi brennisteinslyktin ekki leynt sér …
Auður segir að um níuleytið hafi brennisteinslyktin ekki leynt sér við ánna, hún orðin kolmórauð og hafði vaxið talsvert. Ljósmynd/Auður Guðbjörnsdóttir

Heimilisfólk rólegt 

Auður hefur búið á Búlandi frá 2013 en síðast kom hlaup í Skaftá árið 2021. Náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar sagði í samtali við mbl.is að talið sé að þetta hlaup verði hefðbundið, svipað því sem varð árið 2021. 

Auður segir að það hlaup hafi haft lítil áhrif og að áin hafi grafið sig það mikið niður á svæðinu að það flæði ekki inn á tún eða annað slíkt, líkt og gerðist árið 2015. 

Hún segir því heimilisfólk á Búlandi sé nokkuð rólegt yfir þessu hlaupi. 

„Þetta gengur bara yfir. Eini munurinn er sá að núna fengum við engar viðvaranir,“ segir Auður og bætir við að lokum að það breyti engu. 

Síðast kom hlaup í Skaftá í september 2021.
Síðast kom hlaup í Skaftá í september 2021. Ljósmynd/Auður Guðbjörnsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert