Landris hafið að nýju á Reykjanesskaga

Gígurinn við Litla-Hrút. Landris virðist hafið á sömu slóðum og …
Gígurinn við Litla-Hrút. Landris virðist hafið á sömu slóðum og fyrir síðasta gos. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vísbendingar eru um að land sé tekið að rísa að nýju á Reykjanesskaga, rétt eins og í aðdraganda þeirra þriggja eldgosa sem brotist hafa út á skaganum síðustu ár.

„Okkur sýnist á GPS-mælum að landris sé hafið á svipuðum slóðum og fyrir síðasta gos,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, í samtali við Morgunblaðið í dag.

„Við erum því líklega núna að horfa á þessa langtímaviðvörun, ef svo má kalla, sem við höfum áður haft,“ bætir hann við. „Það stefnir allt í að það gerist eitthvað þarna á næstu misserum.“

Ekki áður mælst svo snemma

Ef rétt reynist þá er þetta í fyrsta sinn sem landris af þessari stærðargráðu mælist svo snemma að loknu gosi á Reykjanesskaganum. Land tók þó líklega að rísa aftur um leið og fyrri tveimur gosunum lauk.

„Það byrjaði örugglega alveg samstundis, en það var svo hægt að við gátum ekki staðfest það fyrr en svolítið löngu seinna. Einfaldlega vegna þess að það var miklu hægara,“ segir Benedikt.

„En núna virðumst við vera að sjá þetta strax aftur. Bara um leið og gosinu lauk, þá vorum við farin að sjá það sem við teljum vera merki um áframhaldandi þenslu.“

Erfiðara að segja til um tímann

Síðasta gos braust út við Litla-Hrút þann 10. júlí. Virkni mældist síðast í gígnum þann 5. ágúst og var goslokum lýst yfir tíu dögum síðar. Búast má við því að hafinn sé aðdragandi að öðru eins eldgosi og við höfum áður orðið vitni að, segir Benedikt.

Erfiðara er að segja til um hvenær megi vænta þess.

„Það er erfitt að segja til um tímann. Það gætu verið einhverjir mánuðir, eða minna. Við sjáum bara að þetta er í bígerð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert