Kvika sem hefur ekki sést áður á skaganum

Frá fyrsta degi goss­ins sem varð í júlí, því þriðja …
Frá fyrsta degi goss­ins sem varð í júlí, því þriðja á þrem­ur árum. mbl.is/Árni Sæberg

Rúmar þrjár vikur eru liðnar frá því að eldgosinu lauk sem upp kom við Litla-Hrút á Reykjanesskaga þann 10. júlí.

Gosið var það þriðja á jafnmörgum árum á skaganum og þykir til marks um að hafið sé nýtt tímabil aukinnar eldvirkni í landshlutanum.

Og sú aukna virkni þarf ekki að takmarkast við Reykjanesskagann, eins og Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði, greindi frá í samtali við Morgunblaðið fyrr í mánuðinum.

Möttulstrókurinn gæti verið að eflast

Vísaði hann til möttulstróksins undir Íslandi sem ásamt flekaskilunum hefur búið til landið og mótað það.

„Það bendir sumt til þess að möttulstrókurinn sé að eflast og að þetta séu afleiðingar af því. Maður veit það ekki fyrir víst en manni finnst það svo sem ekkert ólíklegt,“ sagði Þorvaldur.

Eitt af því sem helst rennir stoðum undir þá kenningu er sú staðreynd að kvikan, sem brotist hefur upp á yfirborðið síðustu þrjú ár til þess eins að storkna þar sem hraun, er ólík nokkurri þeirri kviku sem sést hefur áður á Reykjanesskaga.

Kaflaskipti í maí 2021

Þorvaldur rifjar nú upp gosið í Geldingadölum sem hófst í mars 2021. Það fyrsta á þeim slóðum í um sex þúsund ár.

„Kvikan sem kom upp allra fyrst í því gosi kallast sneydd kvika og er smá öðruvísi. Hún ber vitni um að hafa orðið fyrir skorpumengun,“ segir hann og útskýrir:

„Hún hefur mengast af skorpunni með því að sitja í henni í einhvern tíma áður en hún kom upp. En kvikan sem kemur upp, um það bil eftir 1. maí í því gosi – það er kvika sem hefur aldrei áður gosið á Reykjanesskaganum svo að við vitum til.“

Svo virðist sem þessi kvika eigi meira skylt við þá sem upp kemur á austurgosbeltinu. Undir það heyra ekki minni eldstöðvar en Hekla, Katla, Torfajökull, Grímsvötn og Bárðarbunga, svo dæmi séu tekin. Þar hafa jarðvísindamenn talið að áhrifa möttulstróksins gæti meira.

Umfjöllunina í heild sinni má finna í Morgunblaðinu í dag, eða endurgjaldslaust með því að smella hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert