Rannsóknarvinna sem tekur nokkrar vikur

Rútuslysið við Blönduós er enn til rannsóknar.
Rútuslysið við Blönduós er enn til rannsóknar. mbl.is/Jón Sigurðsson

Rannsókn stendur enn yfir á rútuslysinu sem varð á veginum rétt sunnan við Blönduós á föstudaginn en rúta, með 23 farþega innanborðs auk ökumanns, lenti út af veginum.

Rannsókn á tildrögum slyssins er annars vegar á hendi lögreglunnar á Norðurlandi vestra og hinsvegar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

„Rútan er í rannsókn þar sem meðal annars er verið að skoða ökuritann og þá erum við að ræða við alla sem í rútunni voru. Í framhaldinu verða svo teknar skýrslur af þeim. Þessi vinna verður í gangi næstu vikur,“ segir Vilhjálmur Stefánsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra.

Vilhjálmur segist ekki vita hvort einhverjir séu enn á sjúkrahúsi en sjö voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlu Landhelgisgæslunnar og í sjúkraflugi. Aðrir voru fluttir á heilbrigðisstofnun Norðurlands á Akureyri. 

„Það er nú líklegt að einhverjir liggi enn inni á sjúkrahúsi enda var þetta mikið slys,“ segir Vilhjálmur en að því er best er vitað slasaðist enginn lífshættulega. Slysið var flokkað sem svokallað háorkuslys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert