Farþegarnir starfsmenn á búsetukjörnum Akureyrar

Rútuslys varð við Blönduós í gærmorgun. 24 voru um borð …
Rútuslys varð við Blönduós í gærmorgun. 24 voru um borð í rútunni þegar hún valt. mbl.is/Jón Sigurðsson

Flestir af þeim 24 sem fluttir voru á sjúkrahús í kjölfar rútuslyss á þjóðveg­in­um nærri Blönduósi í gærmorgun eru komnir heim. Allir farþegar rútunnar eru starfsmenn á velferðarsviði Akureyrarbæjar.

Hóp­ferðabif­reið lenti út af veg­in­um rétt sunn­an við Blönduós á sjötta tím­an­um í gærmorg­un. Í bif­reiðinni voru 23 farþegar auk öku­manns. Þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar og all­ir til­tæk­ir viðbragðsaðilar voru kallaðir út. Rauði kross­inn opnaði einnig fjölda­hjálpa­stöð á Blönduósi í kjöl­far slyss­ins.

Enginn þeirra sem var um borð er í lífshættu, samkvæmt því sem Hösk­uld­ur Erl­ings­son, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi, sagði við mbl.is í gær.

Frá vettvangi í gærmorgun.
Frá vettvangi í gærmorgun. mbl.is/Jón Sigurðsson

Flestir komnir heim af sjúkrahúsi

„Það eru flestir komnir heim með, sem betur fer, minniháttar meiðsli en einhverjir eru enn á sjúkrahúsi, með frekari meiðsli,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, í samtali við mbl.is.

Af þeim 24 sem voru um borð voru sjö fluttir á sjúkrahús í Reykjavík og aðrir fluttir á heil­brigðis­stofn­un Norður­lands á Ak­ur­eyri.

„Þetta er starfsfólk í búsetuþjónustu. Það vinnur á búsetukjörnunum hjá okkur,“ bætir hún við en Rúv greindi frá því í gær að starfsfólkið var á leiðinni heim eftir námskeið og ráðstefnu í Portúgal.

Ásthildur segist ekki hafa fengið frekari upplýsingar um ástand samstarfsfólks síns síðan í gær.

Ásthlidur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Ásthlidur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Ljósmynd/Auðunn Níelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert