Lýðheilsumat gæti haft áhrif

Alma Möller landlæknir telur aukið aðgengi að áfengi hafa slæmar …
Alma Möller landlæknir telur aukið aðgengi að áfengi hafa slæmar afleiðingar í för með sér. Samsett mynd

Framkvæma ætti lýðheilsumat þegar lagafrumvörp sem hafa áhrif á heilsu þjóðarinnar, á borð við sölu áfengis í matvöruverslunum, eru lögð fram, að mati landlæknis.

„Okkur finnst að það eigi að gera þetta við öll lagafrumvörp, eins og við gerum umhverfismat varðandi lög sem að lúta að stórum framkvæmdum. Við viljum sjá lýðheilsumat í öllum slíkum lagafrumvörpum. Þá held ég nú að menn myndu nú kannski hætta við að leggja fram frumvörp sem snúa að auknu aðgengi að áfengi,“ segir Alma Möller landlæknir í samtali við mbl.is á norrænni ráðstefnu um áfengi og lýðheilsu sem haldin var í dag á Grand hótel.

Á ráðstefnunni var fjallað um áhrif áfengis á bæði líkamlega og andlega heilsu, sem og samfélagið í heild sinni. Komu þar m.a. fram sérfræðingar frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, finnska heilbrigðisráðuneytinu og SÁÁ.

Engin opinber stefna

Maik Dünnbier, frá alþjóðlegu forvarnarsamtökunum Movendi International, vakti athygli á því að samkvæmt lýðheilsumati sem framkvæmt var í Svíþjóð er áætlað að þúsund fleiri Svíar deyi á ári ef sala áfengis í verslunum verður heimiluð.

Maik Dünnbier, frá alþjóðlegu forvarnarsamtökunum Movendi International, ásamt Láru G. …
Maik Dünnbier, frá alþjóðlegu forvarnarsamtökunum Movendi International, ásamt Láru G. Sigurðardóttur, lækni hjá SÁÁ.

„Við eigum að byggja allar okkar ákvarðanir, sama hverjar þær eru, á bestu þekkingu og vísindum og við vitum mjög vel að það sem skiptir máli varðandi áfengi, og það sem er líklegt til þess að minnka neyslu þess og þar af leiðandi minnka áhrif á heilsu og umhverfi, það er fyrst og fremst aðgengi, [...] að banna auglýsingar og sýnileika, og það eru skattar og að hafa verðið ekki of lágt. Allt þetta skilar sér í minni neyslu og minni áhrifum á heilsu,“ segir Alma.

Þá ítrekar hún þau miklu áhrif sem að aukið aðgengi að áfengi hefur á heilsufar: „Hvort sem það á við með fleiri söluaðilum, auknum opnunartíma, netsölu eða hvað það er.“

Engin opinber stefna

Áfengisneysla Íslendinga hefur vaxið um 17% á undanförnum 20 árum, sem er yfir meðaltali í Evrópu. 

Engin opinber stefna er þó við lýði á Íslandi er varðar áfengis- og vímuvarnir.

„Það var til stefna í áfengis- og vímuvörnum sem að rann út árið 2020 og við hjá embætti landlæknis höfum haldið því mjög á lofti að það þyrfti að uppfæra þá stefnu, ekki bara vegna áfengis heldur vegna annarra vímuefna sem við sjáum að eru vaxandi vandamál. Þetta er mjög brýnt,“ segir Alma en tekur þó fram að samkvæmt upplýsingum sem hún hefði úr heilbrigðisráðuneytinu væri ný stefna til skoðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert