Axlar ekki ábyrgð með því „að skipta um stól“

Ég á erfitt með þessa nýju skilgreiningu sem menn eru …
Ég á erfitt með þessa nýju skilgreiningu sem menn eru að teikna upp – að það sé einhver öxlunarábyrgð í því að skipta um stól við ríkisstjórnarborðið,“ segir Hanna Katrín við mbl.is. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/Kristinn Magnússon

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir þá óvissu sem skapast hefur í kringum afsögn fjármálaráðherra vera óboðlega í núverandi efnahagsástandi. Telur hún hann ekki axla raunverulega axla ábyrgð með því að „að skipta um stól við ríkisstjórnarborðið“.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti í gær að hann segði af sér ráðherraembættinu í kjölfar þess að umboðsmaður Alþingis birti álit um söl­una á hlut rík­is­ins í Íslands­banka. Niðurstaða umboðsmanns var að Bjarna hefði brostið hæfi við söl­una á hlut rík­is­ins í bank­an­um.

Næstu skref liggja þó enn ekki skýrt fyrir. Marg­ir hafa nefnt að Bjarni og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra gætu haft stóla­skipti, en hún er sögð treg til vegna mik­il­vægra og viðkvæmra verk­efna á alþjóðavett­vangi.

Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra eftir álit umboðsmanns …
Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra eftir álit umboðsmanns Alþingis um að honum hafi brostið hæfi við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki góð staða

„Mér finnst þetta ekki góð staða,“ segir Hanna Katrín í samtali við mbl.is. „Í fyrsta lagi er um að ræða síðustu skrefin í máli sem hefur tekið býsna langan tíma. Og við erum mörg sem höfum bent á lengi að þetta yrði niðurstaðan. Það er ekki gott þegar [álit umboðsmanns Alþingis] liggur fyrir að það skuli enn vera óvissa um næstu skref.“

Hún segir sú óvissa sem skapast hefur vegna afsagnar fjármálaráðherra sé „ekki boðleg núna í þessum erfiðu efnahagsaðstæðum sem við búum núna við“.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný skilgreining á því að axla ábyrgð

Hvað væri það besta í stöðunni?

„Best í stöðunni væri auðvitað að þessi ríkisstjórn færi frá,“ svarar Hanna Katrín og hlær.

En fyrir utan það?

„Ég veit það ekki. Mér finnst erfitt að tala um svona mál. Þetta er aldrei léttúðlegt þegar maður talar um að einhver eigi að taka pokann sinn eða eitthvað slíkt. Við sinnum hér mikilvægu hlutverki, ráðherrarnir auðvitað enn frekar.“

„Ég á erfitt með þessa nýju skilgreiningu sem menn eru að teikna upp – að það sé einhver öxlunarábyrgð í því að skipta um stól við ríkisstjórnarborðið,“ segir hún. „Ég hefði haldi að ef að ráðherra ætlaði bregðast við á þann hátt með því að raunverulega að axla ábyrgð, stígur hann út úr þessari ríkisstjórn. En verður það? Ég hef ekki hugmynd.“

Sérstakt hvernig Svandísi er blandað í málin

Í kjöl­far af­sagn­ar Bjarna hafa spjót­in beinst af Svandísi Svavarsdóttur mat­vælaráðherra en umboðsmaður Alþing­is er með til skoðunar hvort hún hafi mögu­lega brotið stjórn­sýslu­lög þegar hún setti í reglu­gerð bann við veiðum á langreyðum í ág­úst.

mbl.is fékk þau skila­boð frá aðstoðar­manni Svandís­ar í dag að hún ætli ekki að tjá sig um mál­in að svo stöddu.

„Það er alveg klárt að það er verið að teikna hana upp. Það er svolítið sérstakt hvernig þessum málum er blandað saman. Ég var akkúrat að reyna að átta mig á því í gær hvenær líkur eru á að umboðsmaður skili áliti vegna þess máls og bera það saman við tímann sem hann tók sér í þetta mál,“ segir Hanna og bætir við að þá hljóti niðurstaðan legið fyrir sitthvoru megin við áramót.

„Ef niðurstaðan er lögbrot þá hlýtur umræðan að fara í gang. En mér finnst samt vont ef að hugmyndir og hugleiðingar þarna á milli fari að hafa einhver áhrif á þessar niðurstöður, því þetta eru tvö ólík mál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert