Niðurfellingin fyrirséð og breytir engu

Hvammsvirkjun í Þjórsá er í biðstöðu eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- …
Hvammsvirkjun í Þjórsá er í biðstöðu eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi virkjanaleyfi og framkvæmdaleyfi Landsvirkjunar úr gildi. Samsett mynd

„Þetta er fyrirséð út frá úrskurðinum en breytir engu með eðli málsins,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, við mbl.is, um niðurfellingu á fram­kvæmda­leyfi vegna Hvamms­virkj­un­ar. Það sé ákvörðun Alþingis að fara í þennan virkjanakost og því verði það gert.

Sveit­ar­stjórn Skeiða- og Gnúp­verja­hrepps samþykkti að veita Landsvirkjun fram­kvæmda­leyfi vegna Hvamms­virkj­un­ar þann 14. júní, en dag­inn eft­ir felldi úr­sk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála virkj­un­ar­leyfið úr gildi, sem áður hafði verið veitt. Nú er því bæði búið að fella úr gildi fram­kvæmd­a- og virkj­un­ar­leyfi sem búið var að veita vegna fram­kvæmd­ar­inn­ar.

Úrsk­urður­inn byggði á fjölda kæra sem nefnd­inni hafði borist. Fjöldi náttúrusamtaka höfðu mótmælt framkvæmdinni og m.a. sagt að hún gæti ekki tryggt til­vist hins villta laxa­stofns í Þjórsá.

Þjórsá er lengsta fljót Íslands.
Þjórsá er lengsta fljót Íslands. Tölvumynd/Landsvirkjun

Ákvörðun Alþingis

„Við höfum gert mjög lítið í raforkumálum í 15 ár og enn þá lengur þegar kemur að hitaveitum. Þessir ferlar eru ekki mjög vel slípaðir, vegna þess að það hefur lítið verið gert í mjög langan tíma,“ segir Guðlaugur Þór.

Fram kom í raf­orku­spá Landsnets í ágúst að þörf væri á fleiri virkj­un­um til viðbót­ar þeim sem áformaðar eru, auk stækk­un­ar á virkj­un­um sem þegar eru fyr­ir hendi. Einnig þyrfti að horfa til fjöl­breytt­ari orku­gjafa eins og vindorku og sól­ar­orku.

„Okkur liggur mjög á að fá græna orku og sem betur fer eru orkufyrirtækin að fara að nýta það sem er í nýtingarflokki sem er fagnaðarefni. Og þegar Alþingi íslendinga hefur ákveðið að setja hluti í nýtingarflokk þá er mjög mikilvægt að það verði gert, meðal annars til þess að ná loftslagsmarkmiðum okkar.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Lands­virkj­un leitist eftir und­anþágu

Guðlaugur er ekki einn um það að hafa séð fyrir niðurstöðurnar. Snæ­björn Guðmunds­son, formaður Nátt­úrugriða, sem eru ein þeirra sam­taka sem stóðu að kær­un­um, sagð­i við mbl.is fyrr í dag að það væri augljóst að samþykkt framkvæmdarleyfi myndi ekki standast.

Snæbjörn sagðist jafnframt vita til þess að Lands­virkj­un leitaðist við að fá und­anþágu til þess að virkj­un­ar­leyfið yrði veitt að nýju. Hann sagði mjög ströng skil­yrði vera fyr­ir und­anþág­unni en ótt­aðist að leyfið yrði veitt þó skil­yrðin væru ekki fyr­ir hendi.

„Við vit­um það al­veg í þess­um nátt­úru­vernd­ar­sam­tök­um, sem kærðum og erum með þetta í gjör­gæslu, að það hef­ur verið gefið í skyn í fjöl­miðlum að þetta séu einskon­ar forms­atriði sem þurfi bara að kippa í lag. Við vit­um al­veg að það er ekki þannig, þetta er mikli meira en forms­atriði,“ sagði Snæ­björn, sem einnig árétt­aði að fyr­ir und­anþág­unni þyrftu að vera mjög sterk­ar ástæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert