Skrefi nær að hefja framkvæmdir við Hvammsvirkjun

Fyrirhuguð Hvammsvirkjun.
Fyrirhuguð Hvammsvirkjun. Ljósmynd/Landsvirkjun

Umhverfisstofnun veitti í dag heimild til breytinga á vatnshloti vegna fyrirhugaðra framkvæmda við 95 MW  Hvammsvirkjun í Þjórsá. 

Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. 

Einnig er fjallað um þessa grein á vef Landsvirkjunar þar sem ákvörðuninni er fagnað. 

Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóra framkvæmda hjá Landsvirkjun, segir í greininni að undirbúningur fyrir byggingu Hvammsvirkjunar hafi staðið lengi og með þessu færist Landsvirkjun skrefi nær því að geta hafið framkvæmdir.

Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri framkvæmda hjá Landsvirkjun.
Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri framkvæmda hjá Landsvirkjun. Ljósmynd/Landsvirkjun

Sótti um virkjunarleyfi 2021

Í greininni rifjar Ásbjörg um forsögu málsins, en Landsvirkjun sótti um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun til Orkustofnunar í júní 2021 með það að markmiði að hefja byggingu hennar 2022 og taka hana í rekstur 2026.

„Orkustofnun veitti leyfið einu og hálfu ári síðar, í lok árs 2022 og því ljóst að verkefnið myndi frestast. Í kjölfarið var sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna tveggja, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps var rétt búin að samþykkja framkvæmdaleyfið þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi virkjunarleyfið úr gildi í júní 2023. Sú ákvörðun var byggð á því að ekki hafi verið tekið nægt tillit til laga um stjórn vatnamála, en fyrsta vatnaáætlunin var gefin út í apríl 2022. Sú niðurstaða gerði það að verkum að sveitarfélögin urðu að staldra við og horfa til sömu atriða við útgáfu framkvæmdaleyfis.

Í ljósi þessarar stöðu var ákveðið að hætta við útboðsferli undirbúningsframkvæmda um ótilgreindan tíma en áformað hafði verið að þær gætu hafist það sumar,“ skrifar Ásbjörg. 

Afgreiðslutíminn óviss

Þá segir, að Umhverfisstofnun hafi auglýst skömmu fyrir jól 2023 áform um að veita heimild til að breyta vatnshloti og athugasemdafrestur hafi runnið út 17. janúar. Sótt hafi verið um heimildina áður en virkjunarleyfið var fellt úr gildi, eða í janúar 2023 og hafi hún verið veitt í dag, sem fyrr segir. 

Ásbjörg bendir á, að í framhaldinu muni Orkustofnun auglýsa ný gögn og veita lögbundinn fjögurra vikna athugasemdafrest. Eftir það fái Landsvirkjun 2-4 vikur til að bregðast við athugasemdum og að því loknu hafi Orkustofnun tvo mánuði til að afgreiða virkjunarleyfi, verði það niðurstaðan.

Hún tekur fram að afgreiðslutíminn sé nokkuð óviss.

Gæti komið upp erfið staða í haust

„Ef allir frestir verða nýttir til hins ítrasta, ætti virkjunarleyfið að liggja fyrir í síðasta lagi síðsumars. Það gæti þó gerst fyrr, allt eftir því hversu hratt gengur að vinna málið. Það er sagt með þeim fyrirvara að það verði niðurstaða Orkustofnunar að veita leyfið,“ skrifar hún. 

Ásbjörg tekur fram í lok greinarinnar, að nú sé að bíða og sjá hvort þetta gangi upp.

„Fari svo að leyfin liggi ekki fyrir í haust verður komin upp erfið staða sem gæti frestað verkefninu um enn eitt ár. Við hjá Landsvirkjun vonum auðvitað það besta og erum tilbúin að hefjast handa. Við hlökkum til að sjá hverflana fara að snúast í Hvammsvirkjun, samfélaginu öllu til heilla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert