Íbúar munu ekki geta sótt nauðsynjar

Víðir ræddi við mbl.is um nýjustu fregnir.
Víðir ræddi við mbl.is um nýjustu fregnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Núna er enginn á svæðinu sem við skilgreinum mesta hættusvæði og það fer enginn inn á það á meðan að þetta ástand er. Þetta þýðir til dæmis það, að öllu óbreyttu, að áætlanir um að íbúar geti farið heim á morgun að sækja nauðsynjar, það verður ekki.“

Þetta segir Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, í samtali við mbl.is.

Áform voru um að íbúar Grindavíkur myndu geta snúið aftur í bæinn á morgun til að sækja nauðsynjar, en um ellefuleytið í gærkvöldi var ákveðið á rýma bæinn vegna kvikugangs.

Fyrir skömmu var greint frá því að kvika sé grynnst á 800 metra dýpi eða jafn­vel nær.

Spurður hvort það muni þurfa að grípa til frekari rýminga á Reykjanessskaga segir Víðir svo ekki vera.

Ekki hægt að bjarga dýrum

Enn eru dýr í Grindavík en ólíklegt er að hægt verði að bjarga þeim. 

„Það er ekki óhætt að vera inn á svæðinu. Við getum því miður ekki leyft einhverjum að fara inn á svæðið til að sækja dýr,“ segir Víðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert