Kvikan liggur grynnst mjög nálægt bænum

Kvikugangurinn er um 15 km langur og nær frá Kálffellsheiði …
Kvikugangurinn er um 15 km langur og nær frá Kálffellsheiði í norðri og liggur rétt vestan Grindavíkur og í sjó fram í suðvestur stefnu. Kvikan liggur á um 800 metra dýpi þar sem hún er grynnst. Kort/mbl.is

Ekki er útilokað að gos geti hafist bæði í sjó og á landi. Umfang kvikugangsins sem liggur m.a. undir Grindavík er verulegt og er kvika að nálgast yfirborðið. Rétt vestan við Grindavík liggur kvika grynnst á um 800 metra dýpi.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofu Íslands.

„Það er ekkert öruggt um að það verði eldgos en við teljum að það séu mjög auknar líkur á því að það hefjist eldgos innan nokkurra daga – eða innan mjög skamms tíma ef að það kemur gos,“ segir Benedikt.

Gos á hafsbotni líklegur möguleiki

Ef að gos kemur upp í sjó, getur líka gosið á landi?

„Það er ekkert sem útilokar það. Almennt séð höfum við talið litlar líkur á að það gjósi út í sjó þarna, það eru fá dæmi um að það gerist en þau eru til. En eins og staðan er núna er það einn líklegur möguleiki. Það getur vel komið sprunga sem fer bæði í sjó og land.“

Eru einhver gögn sem geta sagt til um hvort það sé líklegra að það gjósi í sjó eða á landi?

„Nei við höfum ekki nægar skorður. Við erum bara með kvikuinnskotið, við erum að horfa á syðsta hlutann af því. Það er líka krítískasti hlutinn. Þar eru innviðir og þar getur þetta lent út í sjó. Það er staðurinn sem við erum fyrst og fremst að horfa á. Allur gangurinn er í raun hættusvæði og við myndum ekki útiloka gos nokkurs staðar á ganginum, en við erum fyrst og fremst að horfa á suðurhlutann núna.“

Vestan við Grindavík og út í sjó

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands sem barst á sjöunda tímanum segir að kvikugangurinn sé um 15 km langur og að kvika liggi á um 800 m dýpi þar sem hún sé grynnst.

Að sögn Benedikts liggur kvikan grynnst vestan við Grindavík og út í sjó.

„Þetta er löng lína sem við erum að sjá merki um kviku sem er að nálgast 800 metrana. [...] En þetta er mjög nálægt bænum.“

mbl.is