Sigurður Ingi: Þetta er grafalvarleg staða

Sigurður Ingi innviðaráðherra ræddi við mbl.is um mögulega varnargarða við …
Sigurður Ingi innviðaráðherra ræddi við mbl.is um mögulega varnargarða við virkjunina í Svartsengi. Samsett mynd

Innviðaráðherra segir að landsmenn verði að halda í þá von að hlutir fari ekki á hinn versta veg á Suðurnesjum, þar sem hugsanlegt eldgos vofir nú yfir. Einhugur sé í ríkisstjórninni um nýtt frumvarp forsætisráðherra um vernd mikilvægra innviða á Reykja­nesskaga.

„Þetta er náttúrulega grafarvarleg staða og eins og okkar færasta fólk er að lýsa þá er það talsvert öðruvísi – stærra en við höfum kannski séð,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra um ástandið á Reykjanesskaga í samtali við mbl.is.

„Áfram þurfum við auðvitað að vonast eftir því að sú sviðsmynd að þetta fjari út raungerist og það getur auðvitað alltaf gerst, en við þurfum að vera undirbúin að hið gagnstæða gerist – að það komi að lokum eldgos og hvernig við getum þá brugðist við því,“ 

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikilvægt að halda hraunrennsli frá byggðinni

Fyrr í dag lagði Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra fram frum­varp um vernd mik­il­vægra innviða á Reykja­nesi. Í frum­varp­inu er kveðið á um að sá ráðherra sem fari með mál­efni al­manna­varna sé heim­ilt að feng­inni til­lögu rík­is­lög­reglu­stjóra að taka ákv­arðanir um nauðsyn­leg­ar fram­kvæmd­ir í þágu al­manna­varna – meðal annars um upp­bygg­ing varn­argarða.

„Í ljósi þeirra atburða sem hafa verið að gerast síðustu vikuna eða síðustu dagana, þá er nokkuð ljóst að við þurfum annars vegar að vera tilbúin að verja orkuverið í Svartsengi – það er gríðarlega mikilvægt fyrir allan Reykjanesskagann – og hins vegar að vera tilbúin ef við gætum hjálpað til við að halda hraunrennsli frá byggðinni,“ segir Sigurður Ingi og heldur áfram:

„Frumvarpið tekur auðvitað á því og ef við verðum svo heppin að þetta fjari út og við lendum aftur á óvissustig þá höfum við þessi lög til þess að halda áfram undirbúningi,“ segir innviðaráðherra og bendir á að slík lagaheimild sé ekki þörf þegar neyðarstigi hefur verið lýst yfir eins og nú.

Staðsetning varnargarða á Suðurnesjum er í endurkskoðun.
Staðsetning varnargarða á Suðurnesjum er í endurkskoðun. Teikning/Verkís

Forvarnagjöld skili milljarði í ríkiskassann á ári

Í frumvarpinu seg­ir að leggja skuli ár­legt forvarnagjald á all­ar hús­eign­ir, sem nemi 0,08‰ af bruna­bóta­mati sam­kvæmt lög­um um bruna­trygg­ing­ar. Eiga tekj­ur af gjald­inu renna í rík­is­sjóð. Sigurður Ingi segir að þetta sé byggt á eldri lögum um Ofanflóðasjóð:

„Í gamla Ofanflóðasjóðinum í náttúruhamfaratryggingum erum við með gjöld sem eru af sama stokki og erum að hækka það um 0,08 prómíl,“ segir innviðaráðherra og útskýrir að þessi hækkun geti skilað aukamilljarði í ríkissjóð á ári.

„Þetta er tímabundið gjald sem þarf auðvitað að endurskoða líka í tengslum við það sem við höfum verið að ræða á undanförnum árum – kannski nauðsyn þess að víkka út þessa náttúruhamfaratryggingu varðandi ofanflóðin vegna þess að við erum farin að sjá örflóð, jafnvel sjávarflóð og hugsanlega hraunflóð. Við erum kannski að taka eitt skref í þá átt.“

Er einhugur um þetta í ríkisstjórninni?

„Um allt þetta. Algjörlega.“

Engar áætlanir um byggingu nýrra húsa fyrir Grindvíkinga

Spurður að því hvort ríkisstjórnin sé farin að vinna að áætlun um byggingu nýrra húsa undir Grindvíkinga, í því tilfelli að bærinn fari undir hraun, svarar Sigurður neitandi.

„Auðvitað erum við náttúrulega bara í upphafi „ef-atburðarins“ og erum enn að vonast til þess að „efið“ verði ekki að veruleika, og gerum svo allt sem í okkar valdi stendur til þess að takmarka það tjón sem hugsanlega yrði í ef-atburðinum ef við getum haft stjórn á því. Þannig nei það er ekkert komið lengra í þeim pælingum – engan veginn. Enn er von til þess að þessar dekkstu sviðsmyndir verði ekki að veruleika.“

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert