„Það verður gos“

Ármann segir að það séu nokkrar risastórar sprungur sem tengjast …
Ármann segir að það séu nokkrar risastórar sprungur sem tengjast þessum flekaskilum. Samsett mynd

Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands, segir það ekki spurningu um hvort heldur hvenær það byrji að gjósa að nýju á Reykjanesskaganum.

Telur hann enn líklegast að það verði í Eldvörpum, en því hefur hann spáð tvisvar áður í samtali við mbl.is á undanfarinni viku.

„Kerfið er að jafna sig eftir þessi miklu átök sem áttu sér stað á föstudaginn. Kvikan heldur áfram að dælast inn sem var viðbúið. Mestar goslíkur voru á föstudag og laugardag en nú dvína þær hægt og rólega,“ segir Ármann.

„En á sama tíma er verið að gera klárt í gos og með sama áframhaldi ætti kerfið að vera orðið gott í gos eftir svona 10-20 daga. Það verður gos,“ segir Ármann við mbl.is í dag, þegar hann er beðinn um að meta stöðuna í ljósi nýjustu upplýsinga.

Horft yfir hraunið og að Hagafelli, þar sem gos þykir …
Horft yfir hraunið og að Hagafelli, þar sem gos þykir einna líklegast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldvörp líklegasti gosstaðurinn

Ármann segir að svæðið við Eldvörp sé enn líklegasti gosstaðurinn að hans mati.

„Það er að þenjast út á þessu svæði og í þeim gögnum sem jarðeðlisfræðingarnir á Veðurstofunni eru með þá virðist kvika hafi farið úr syllunni við Þorbjörn og myndað þennan gang sem fór í Sundhnúkasprunguna,“ segir Ármann.

„Svo mega menn heldur ekki gleyma að þetta er samspil af kvikuvirkni og flekahreyfingunum.“

MIkill viðbúnaður hefur verið í og við Grindavík síðustu daga.
MIkill viðbúnaður hefur verið í og við Grindavík síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stór og mikill atburður á föstudag

Ármann segir að það séu nokkrar risastórar sprungur sem tengjast þessum flekaskilum. Þar nefnir hann Eldvarpasprunguna og Sundhnúkasprunguna.

„Ég myndi halda eins og staðan er núna þá erum við frekar róleg á meðan kvika er að streyma inn í sylluna aftur. Hún þarf að ná upp þrýstingi aftur áður en hún getur gert eitthvað.“

Fregnir bárust af því fyrr í dag að sprungur hefðu opnast við iðnaðarhverfi við austurenda hafnarinnar í Grindavík. Segir það Ármanni eitthvað?

„Nei, það er í raun bara sigdalurinn. Þetta var stór og mikill atburður á föstudaginn og landið er bara að jafnast til eftir öll þessi átök. Sigdalurinn fer í gang og það tekur hann smá tíma til að þjappa sér niður. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert