„Gott að fá einhverja utanaðkomandi til að horfa á hlutina“

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir upplýsingafundina skilvirka leið til …
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir upplýsingafundina skilvirka leið til að miðla sönnum og réttum upplýsingum til almennings. mbl.is/Óttar

Líkt og fram kom á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag hefur veðrið sett strik í reikninginn síðustu daga svo eftirlitsgeta Veðurstofu Íslands á svæðinu í kringum Grindavík hefur verið takmörkuð. Í samtali við mbl.is að fundi loknum sagði Víðir Reynisson, sviðsstjóri al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, þetta ástand einkum hafa áhrif á vinnuna við varnargarðana.

„Meðan þetta ástand er þá vinnum við ekki við varnargarðinn sem er næst Sundhnúkagígum, sem er næst kvikuganginum. Meðan við getum ekki treyst á þennan fyrirvara sem við þurfum þá höfum við einbeitt okkur alveg að garðinum í kringum Svartsengi en samkvæmt öllu þá ættum við að geta byrjað að vinna í hinum garðinum aftur á morgun.“

Uppfærðu viðbragðsáætlanir fyrir verktaka á svæðinu

Inntur eftir því hvort óhætt sé að hafa hátt í 50 manns í vinnu við uppbyggingu garðanna, dag og nótt, eftir að nýtt hættumat á svæðinu var gefið út segir Víðir að gerðar hafi verið viðeigandi ráðstafanir í kjölfarið.

„Við uppfærðum líka þá bæði viðbragðsáætlanir fyrir verktakana og hættumatið fyrir þá þannig að við erum með meiri vöktun á þeim. Þeir eru með meiri búnað, gasmæla og annað slíkt og eru sjálfir með öryggisstjóra á svæðinu sem metur ástandið bara klukkutíma eftir klukkutíma. Þannig að með öllum þessum viðbúnaði teljum við að þetta sé í lagi,“ segir hann.

Ítalskir eldfjallafræðingar væntanlegir til landsins

Fór Víðir yfir það á fundinum að til skoðunar væri að fá öfl­ug­ar dæl­ur hingað til lands sem gætu mögu­lega nýst til að kæla hraun og beina því frá byggð og innviðum. Þá er hóp­ur sér­fræðinga vænt­an­leg­ur til lands­ins í dag sem mun leggja mat á hvort dælu­búnaður­inn komi að gagni.

En hver er reynslan af slíkum dælubúnaði erlendis?

„Reynslan er mest hér á Íslandi þegar kemur að því að kæla hraun, það hafa ekki margir gert þetta en svona búnaður eins og var til dæmis notaður í Vestmannaeyjum 1973 liggur ekki á lausu. En það er búnaður, sem er notaður í Evrópu í kringum flóð, það er að segja til að dæla flóðavatni frá, og það eru sérfræðingar sem hafa unnið við það í mörg ár að koma og meta það með okkur hvort það sé hægt að nota þann búnað til þess að dæla vatni eða sjó þá vegalengd sem þarf, þá í þeirri hækkun líka sem er þarna á svæðinu til þess að koma því út í  endabúnað sem dugar þá til þess að kæla hraunið,“ segir Víðir.

„Á sama tíma erum við í miklu samstarfi við Evrópusambandið í almannavörnum, kannski sérstaklega Norðurlöndin og Ítalíu, og í þessum hópi eru tveir ítalskir eldfjallafræðingar sem hafa alla sína starfsævi unnið við hættumat og við rýmingaráætlanir og annað í kringum eldfjöll á Ítalíu.

Þannig að það er gott tækifæri fyrir okkur að setjast yfir málin með þeim. Þetta eru aðilar sem báðir hafa komið hingað nokkrum sinnum, þekkja okkar kerfi og þekkja okkur en það er svo gott að fá einhverja utanaðkomandi til að horfa á hlutina sem maður er sjálfur búinn að vera djúpt sokkinn í, í mjög langan tíma.“

Segjum frá öllu sem við vitum

Segir Víðir að lokum aðspurður um þá leið sem hefur verið farin að halda reglulega upplýsingafundi til að ná til fólks hafa virkað vel. 

„Kannski ekki síst vegna þess að þegar að við höldum upplýsingafund þá getur fólk treyst á að við séum að segja þeim allt sem við vitum og köllum þá til þá sérfræðinga sem geta svarað spurningum sem brennur mest á, á þeim tíma. Þannig að þetta er mjög árangursrík leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert