Grindvíkingar fá enn rýmri heimild

Eggert Johannesson

Á morgun mega Grindvíkingar fara inn í bæinn á stærri bifreiðum sem eru allt að 3,5 tonn í heildarþyngd. Einnig verða kerrur leyfðar í íbúðahverfum, en það mátti ekki í dag. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum nú rétt fyrir klukkan 19.

Nýtt fyrirkomulag var tekið upp í dag þar sem Grindvíkingar fengu að sækja verðmæti og huga að eigum sínum frá kl. 11 til 16. Á morgun verður heimilt að fara inn í bæinn milli klukkan 9 og 16. 

Í tilkynningunni segir að hættustig sé enn í gildi en að líkur á fyrirvaralausu eldgosi séu taldar minni en áður. Þá sé talið að svigrúm til að bregðast við eldgosi rýmri en áður. 

Öryggi Grindvíkinga sé þó í fyrirrúmi og því gæti þurft að rýma bæinn með stuttum fyrirvara. 

Upplýsingar fyrir Grindvíkinga sem vilja sækja verðmæti eða huga að eignum sínum:

 • Íbúar í Grindavík beðnir um að skrá sig á www.island.is og fá þar heimild til þess að fara inn. Heimildin mun berast fljótt.
 • Þeir íbúar sem nú þegar hafa fengið staðfesta skráningu á beiðni til að fara inn í húseign þurfa ekki að sækja um aftur.
 • Grindavík er lokuð fyrir öllum öðrum en íbúum bæjarins og þeim sem aðstoða íbúa.
 • Grindavíkurvegur er lokaður, en hægt er að aka Nesveg og Suðurstrandarveg.
 • Mælst er til þess að fólk komi á eigin bílum, hámark 1 bíll á hvert heimili. Ekki er æskilegt að börn séu tekin með sökum aðstæðna á staðnum.
 • Áfram eru gámabílar, gámar eða gámaflutningatæki, stórir sendibílar (yfir 3.5 tonn), ekki leyfðir.
 • Hvorki er virkt frárennsli né rennandi vatn þannig að ekki hægt að nota salerni í húsum í Grindavík. Salerni eru í bænum við grunnskólana tvo.
 • Mælt er með að fólk komi með vatn og önnur matföng fyrir daginn því ekki er hægt að nálgast slíkt í bænum.
 • Hafa ber í huga að hús gætu verið ótrygg. Hægt er að hafa samband við viðbragðsaðila á staðnum.
 • Þeim íbúum í skemmdum húsum sem þegar hafa fengið leyfi er heimilt að flytja búslóðir sínar burt.
 • Mikilvægt er að hvert og eitt heimili skrái hjá sér þau verðmæti sem tekin eru úr húsunum og hafi samband við sitt tryggingafélags vegna þess.
 • Eigendur húsa eru hvattir til þess að koma kyndingu í lag en von er á kólnandi veðri á næstunni.
 • Iðnaðarmenn og íbúar verða að störfum í húsum þar sem hitaveita er ekki í lagi.
 • Íbúar eru hvattir til þess að ganga um og frá húsum sínum með þeim hætti að komið geti til rýminga með stuttum fyrirvara.
 • Mikilvægt er að þau sem fara til Grindavíkur fylgi tilmælum viðbragðsaðila á öllum stundum.
 • Athygli er vakin á að á sama tíma og íbúar fá aðgang er unnið að öðrum verkefnum í bænum.
 • Fjölmiðlum er heimilaður aðgangur.
 • Komi til rýmingar vegna hættuástands munu viðbragðsaðilar þeyta sírenum og ljósmerkjum á ökutækjum og þýðir það tafarlaus rýming á svæðinu samkvæmt rýmingaráætlun. Rýmingarleiðir út bænum eru eftir Suðurstrandavegi eða Nesvegi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert