„Allt fullt af vopnum“ á heimili hins látna

Frá Ólafsfirði í dag.
Frá Ólafsfirði í dag. mbl.is/Sonja

Vitni í Ólafsfjarðarmálinu svokallaða segir að alltaf hafi verið „allt fullt af vopnum“ á heimili Tómasar Waagfjörð. Tómas lést í kjölfar tveggja stunga 3. október á síðasta ári og er Steinþór Einarsson ákærður fyrir að hafa orðið honum að bana. 

Aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag.

Vitnið, kona á aldur við ákærða, var sofandi eftir mikla drykkju þegar atvikið átti sér stað, en það varð á heimili hennar á Ólafsfirði aðfaranótt mánudagsins 3. október 2022. Var hún vinkona eigikonu Tómasar, en eiginkona Tómasar lést 20. október á þessu ári.

Stormasamt samband

Í skýrslutöku fyrir héraðsdómi í dag lýsti vinkonan því að samband hins látna, Tómasar, og konu hans hafi verið mjög stormasamt. Af þeim sökum dvaldi Steinþór á heimili vinkonunnar, en ekki konunnar, þegar hann kom í heimsókn. Steinþór og eiginkona Tómasar voru æskuvinir. 

Laugardaginn 1. október var lögregla kölluð að heimili Tómasar og eiginkonu hans. Fylgdist vinkonan með því af svölunum sínum. Um tveimur klukkustundum síðar kom lögreglan með hana á heimili vinkonunnar. Segir vinkonan að konan hafi verið marin í framan.

Vinkonan segir að hún hafi verið að drekka áfengi alla helgina og þegar lögregla hafi komið með konuna á heimili hennar á laugardeginum hafi þær haldið áfram að drekka saman. Þær hafi svo haldið áfram að drekka á sunnudeginum líka. 

Ætlaði að fara frá Tómasi

Um miðjan dag á sunnudeginum segist vinkonan hafa farið yfir til Tómasar og sótt föt eiginkonu hans og dót. Hafi hún tjáð honum að eiginkona hans ætlaði að fara frá honum og fara til Reykjavíkur daginn eftir. 

Aðspurð segir hún að Tómasi hafi ekki brugðið við að heyra það og ekki virst reiður. 

Þegar Snorri Sturluson, verjandi Steinþórs, spurði hvort einhver vopn hefðu verið á heimilinu svaraði konan: „Það er allt fullt af vopnum í þessu húsi, bara alltaf“.

Umrætt kvöld kom Tómas yfir til vinkonunnar til að reyna að sannfæra eiginkonu sína um að koma aftur heim. Þar sátu konan og Steinþór í eldhúsinu er hann kom. Eftir orðaskipti kom til átaka milli Tómasar og Steinþórs. Segir Steinþór að Tómas hafi dregið upp hníf og ráðst á sig.

Tómas lést í kjölfar átakanna með tvö stungusár, annað í slagæð í mjöðm. Er Steinþór ákærður fyrir manndráp af ásetningi. Neitar hann sök og ber fyrir sig neyðarvörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert