Mæta aftur ef svörin verða ekki betri

Mótmælendur gera kröfu á að Grindvíkingum veitist sambærileg eftirgjöf og …
Mótmælendur gera kröfu á að Grindvíkingum veitist sambærileg eftirgjöf og þeim var veitt hjá bönkunum og Íbúðalánasjóði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við munum mæta aftur ef við verðum ekki ánægð með svörin,“ sagði Hörður Guðbrandsson, formaður verkalýðsfélags Grindavíkur, á stuttum fundi sem haldinn var fyrir utan lífeyrissjóðinn Gildi. Þar gerður Grindvíkingar kröfu á að lífeyrissjóðurinn um eftirgjöf skulda. 

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, svaraði þar spurningum um 25 Grindvíkinga sem saman voru komnir til að óska eftir svörum varðandi lán þeirra hjá sjóðnum. Krefjast þeir þess að lífeyrissjóðurinn sem og aðrir sjóðir felli niður vexti og verðbætur líkt og gert var hjá bönkunum og Íbúðalánasjóði. 

Sótt var að Árna með áleitnum spurningum. Allt fór friðsamlega …
Sótt var að Árna með áleitnum spurningum. Allt fór friðsamlega fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Býðst greiðsluskjól 

Árni tilkynnti hins vegar um að Grindvíkingum sem eru með lán hjá sjóðnum bjóðist greiðsluskjól kjósi þeir svo.

Í því felst að sjóðurinn muni ekki gera kröfu á greiðslu lána í sex mánuði en þess í stað muni greiðsludagar færast aftur um sex mánuði. Vextir og verðbætur munu hins vegar safnast upp á þessum sex mánuðum. Eftir sem áður verður næsti gjalddagi í samræmi við þá sem voru fyrir hvað upphæðir varðar.  

Þá sagði Árni að sjóðurinn væri að skoða það hvort hann hafi heimild til frekari aðgerða er þar að vísa til þess hvort lagalega hafi sjóðurinn heimild til að fella niður vexti og verðbætur. Að sögn hans hefur sjóðurinn ekki séð flöt á því að lagaleg heimild sé fyrir því. 

„Við munum svara til um það í þessari viku,“ sagði Árni við viðstadda. 

Um 40 Grindvíkingar eru með lán hjá sjóðnum og að sögn Harðar Guðbrandssonar, sem er meðal þeirra sem fer fyrir kröfum Grindvíkinga er mótmælum beint að Gildi því hann sé stærsti lánveitandi bæjarbúa hvað lífeyrissjóði varðar. Hins vegar sé ljóst í þeirra huga að kröfurnar nái til allra lífeyrissjóða sem veitt hafi Grindvíkingum lán. 

Gengur verr að skilja auknar kröfur 

Árni hefur gefið í skyn að hendur lífeyrissjóðanna séu bundnar af lífeyrissjóðslögum. 

Þið hafið sagt að þið séuð bundin af lögum varðandi eftirgjöf vaxta og verðbóta. Engu að síður er sótt utanaðkomandi álit. Er þetta eitthvað flókið?

„Utanaðkomandi álit mun berast á hverri stundu og í framhaldi af því mun stjórn sjóðsins svara því hvort einhverjar heimildir séu til staðar,“ segir Árni. 

Hafa slík mál ekki verið fullreynd fyrir dómstólum og er ekki verið að fresta óumflýjanlegri niðurstöðu sem fulljóst er hver er? 

„Það liggja auðvitað fyrir eldri mál eins og frá bankahruni. Það er ekkert í þeim sem bendir til þess að við höfum heimildir. En það sem er verið að skoða hér er hvort að hér séu fordæmalausar aðstæður sem breyta þeirri afstöðu um að okkur sé þetta ekki heimilt. Það er sú niðurstaða sem við bíðum eftir,“ segir Árni. 

Árni Guðmundsson, framkvæmdatjóri Gildi, lífeyrissjóðs.
Árni Guðmundsson, framkvæmdatjóri Gildi, lífeyrissjóðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að mótmælin í dag hafi farið mjög vel fram og gott samtal átt sér stað.  

„Ég hef alveg skilning að fólki líði illa í þessum aðstæðum. Mér gengur hins vegar ekki alveg jafn vel að skilja að fólk átti sig ekki á því að við erum að veita því greiðsluskjól og það er allavega nægjanlegt til þess að létta áhyggjum af fólki í bili. En að þetta (með vexti og verðbætur) sé aðal málið, það gengur mér verr að skilja,“  segir Árni. 

Hann segir það á misskilningi byggt að fólk inni í lífeyrissjóðunum hafi tekið ákvörðun um að veita fólki ekki frekari eftirgjöf. Það sé bundið lögum sem ekki hægt að horfa framhjá. 

Verið að stórgræða á fólki í vanda

Hörður Guðbrandsson, formaður verkalýðsfélags Grindavíkur, segir að tillaga um greiðsluskjól sé ekkert nýtt. „Þarna á bara að stórgræða á fólki sem er í vandræðum í Grindavik og greiðslur fara bara aftast á lánið. Það er enginn lausn í þessu,“ segir Hörður. 

Hörður Guðbrandsson
Hörður Guðbrandsson

Hann segist óttast það að niðurstaða álits muni ekki breyta neinu hvað lífeyrissjóðina varðar. „Ég held að menn fái bara þá niðurstöðu sem þeir vilja og geri ekki neitt,“ segir Hörður. 

En nú er þá ljóst að fólk þarf ekki að huga að þessum greiðslum í sex mánuði. Er það ekki eitthvað? 

„Nei það gerir ekki neitt. Því óvissan er jafn mikil. Við erum að reyna að gera allt til að minnka óvissuna í óvissunni. Þetta gerir ekki neitt fyrir okkur,“ segir Hörður. 

Nú hefur þú sagt að þið munið mæta aftur ef niðurstaða álits verður ykkur ekki í hag. „Við munum ekki hætta fyrr en við fáum niðurstöðu í samræmi við það sem er í bönkunum og hjá íbúðarlánasjóð,“ segir Hörður. 

Hann segir fundinn jákvæðan að einu leyti. Árni hafi nú fyrst viljað ræða málin. „Að öðru leyti gef ég ekkert fyrir þessi svör,“ segir Hörður.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert