Meta hvort kvikugangurinn lengist til suðurs áður en íbúum verður hleypt heim

Stóra málið á dagskrá almannavarna í dag er að leggja …
Stóra málið á dagskrá almannavarna í dag er að leggja frekara mat á hraunflæðið með niðurstöðum frá vísindafundi sem haldinn var í morgun. Samsett mynd

Víðir Reynisson, sviðsstjóri al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, segir að meta þurfi hvort kvikugangur hins nýja eldgoss færist sunnar, nær Grindavík, áður en íbúum bæjarins verði hleypt heim til sín.

Stóra málið á dagskrá almannavarna í dag er að leggja frekara mat á hraunflæðið með niðurstöðum frá vísindafundi sem haldinn var í morgun, að sögn Víðis.

„Síðan er það sem við viljum reyna að finna út úr sem fyrst hvenær við getum hleypt Grindvíkingum inn í Grindavík og með hvaða hætti það verður, og hversu langan tíma í einu og annað slíkt,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.

„Við sáum það á gögnum í gær að kvikugangurinn sem að myndaðist í þessu gosi gekk sunnar en síðasta gosop var, nær Grindavík. Við erum að meta það hvort það sé einhver hætta á því að þetta lengist til suðurs áður en við förum að hleypa fólki inn. Það vonandi skýrist í dag.“

Líf á mörgum stöðum

Víðir segir stöðuna að mörgu leyti svipaða og í nótt. Nú sé reiknað með því að gosið fari að færast á færri staði, líkt og algengt er þegar sprungugos verður.

„Það er ekkert afgerandi á einhverjum einum stað, það er líf í þessu á mörgum stöðum. Það er erfitt að sjá þetta í birtunni, hvað virknin er á stóru svæði.

Hraunið er áfram að flæða í þær áttir sem gefa okkur góðan tíma, til dæmis áður en Grindavíkurvegurinn lendir í einhverri hættu. Það er ekkert stórt að gerast í þessu sýnist okkur næsta sólahringinn,“ segir Víðir.

Gas mældist á Selfossi

Veðrið hefur áhrif, bæði hvað varðar mælingar á svæðinu, og hvað varðar gasmengun út frá eldgosinu. Óvíst er hvort það verði hægt að hæðamæla hraunið með drónum í þessu veðri, að sögn Víðis.

Hann segir að smávægilegt gas hafi mælst á Selfossi í nótt. Það hafi verið undir öllum viðmiðum hvað varðar loftgæði.

Ekki hafi mælst mikil gasmengun við gosstöðvarnar vegna aðstæðna. Til að mynda sé töluverð vatnsgufa í gosmekkinum sem geti þynnt út gasið.

„Við vitum að það er eðli þessa svæðis að gasmengunin er í hlutfalli við það hraunmagn sem kemur upp. Við höfum þá viðmiðin frá fyrri gosum og þá er hægt að keyra þessi gasmengunarlíkön af meiri nákvæmni þegar líður á daginn.“

Ástandið breytist hratt

Er verið að skoða hvort og hvernig almenningur geti skoðað gosið? 

„Það er hluti af því sem við gerum ráð fyrir, að fólk vilji komast nær og sjá þetta. Þetta er snúinn staður að því leytinu til. Það er ekki jafn einfalt með bílastæði eins og var búið að útbúa í kringum Fagradalsfjall. Það getur tekið aðeins lengri tíma að gera þetta svæði aðgengilegt,“ segir Víðir.

Hann bætir við að miðað við stærðina á gosinu þá sé ekki ætlast til þess að neinn fari mjög nálægt því eins og staðan er núna.

„Það sýndi sig í gærkvöldi að þessi mikli atburður tók rétt rúman klukkutíma frá því að við vorum fyrst vör við skjálfta, þangað til kvika var komin upp. Það segir okkur það að ástandið getur breyst mjög hratt á þessu svæði þannig að við viljum alls ekki að fólk fari mjög nálægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert