Getur ekki látið eins og hann viti ekki af þessu

Guðlaugur Þór Þórðarson situr fyrir svörum á vettvangi Spursmála þar …
Guðlaugur Þór Þórðarson situr fyrir svörum á vettvangi Spursmála þar sem orkuöflun og skortur á henni eru í forgrunni. mbl.is/Brynjólfur Löve

„Frá því að ég hóf afskipti af stjórnmálum þá hef ég auðvitað gætt hagsmuna míns kjördæmis og ég mun aldrei hætta því,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, spurður um tillögu ráðuneytisins um stækkun svæðis sem til stendur að friðlýsa í Grafarvogi, skammt frá heimili Guðlaugs.   

Viljinn greindi frá tillögu ráðuneytisins til borgarráðs fyrr í vikunni og vöktu máls á því að sérstaklega sé tekið fram í erindinu að tillagan sé send að beiðni ráðherra, þar sem umrætt svæði sé í „bakgarði hans.“

Til stendur að reisa nýtt og fjölmennt íbúðarhverfi á Keldnalandinu, sem er að hluta til inni á því svæði sem lagt er til að friðlýsa.

„Ég þekki hvern einasta fersentímetra þarna“

Inntur eftir viðbrögðum í samtali við mbl.is segir ráðherrann það ekkert leyndarmál að hann láti sig málið varða og það sé með ólíkindum að málið sé lagt upp með slíkum hætti. 

„Það er auðvitað ekkert leyndarmál að þetta er eitt af því sem ég þekki vel í mínu kjördæmi. Ég þekki hvern einasta fersentímetra þarna,“ segir Guðlaugur.

„Ég hef áhyggjur af stöðu grænna svæða í Reykjavíkurborg og óslendi og ósnortnum strandlengjum,“ segir ráðherrann og minnir á að hann hafi einnig skipt sér af þegar þegar kom að friðlýsingu í Nýja Skerjafirði. 

„Ég ræð þessu ekki“

Varðandi orðalag tölvupóstsins um að tillagan sé send af beiðni ráðherrans, segir hann það einmitt það: orðalag.

„Það liggur alveg fyrir að þetta er eitthvað sem ég hef áhyggjur af og er að beita mér í, en ég ræð þessu ekki. Það er sveitarfélagið sem ræður þessu,“ segir Guðlaugur og kveðst ekkert fara á laun með að sem ráðherra sé hann með tillögur um land allt og skoðanir á hinu og þessu. 

„Ef ég er bara eini maðurinn á Íslandi sem hef áhyggjur af þessu, sem ég held svo sannarlega ekki, nú þá er það bara þannig. En þetta er nokkuð sem ég get ekkert látið eins og ég viti ekki af. Það væri fullkomlega ábyrgðarlaust.“

Guðlaugur segir málið ekki einkamál íbúa Grafarvogs þar sem fjöldi …
Guðlaugur segir málið ekki einkamál íbúa Grafarvogs þar sem fjöldi íbúa allstaðar að komi þar til að njóta útivista. Ljósmynd/Alta

Ekki einkamál íbúa Grafarvogs

Hann segir að fyrri tillaga til borgarráðs um friðlýsingu svæðisins nái ekki til grænna svæða, sem séu mikið notuð sem útivistarsvæði og því telji hann brýnt að stækka svæðið sem lagt er til að verði friðlýst. 

Segir Guðlaugur verðlaunatillögu úr skipulagssamkeppni um Keldnalandið ekki í samræmi við fyrri friðunartillöguna, hvað þá síðari tillöguna. Hann telji það áhyggjuefni að reisa eigi íbúasvæði á svo litlum reit fyrir svipaðan fjölda og búi í sveitarfélaginu Árborg.

„Ef þú leyfir byggingar eða framkvæmdir eða eitthvað slíkt alveg ofan í flæðamálinu þá hefur það áhrif á dýralífið,“ segir ráðherrann og bendir á að tillaga Sjálfstæðisflokksins um að málið yrði tekið til umræðu í íbúaráði Grafarvogs hafi verið felld. Það komi honum spánskt fyrir sjónir. 

Hann fagni því að málið fái umfjöllun, enda sé þetta ekki einkamál íbúa Grafarvogs þar sem fjöldi íbúa allstaðar að komi þar til að njóta útivistar. Sjálfstæðisflokkurinn hafi á sínum tíma staðið fyrir „Grænu byltingunni“ sem hafi snúið að uppbyggingu grænna svæða í borginni og hann hafi áhyggjur af því að sú vinna verði strikuð út. 

Ráðherran telur það áhyggjuefni að reisa eigi íbúasvæði á svo …
Ráðherran telur það áhyggjuefni að reisa eigi íbúasvæði á svo litlum reit fyrir svipaðan fjölda og búi í sveitarfélaginu Árborg. Mynd/FOJAB

Ekki íbúðir fyrir þá sem þurfa á þeim að halda 

Segir hann það almenna reglu í þeim borgum sem við berum okkur saman við að græn svæði séu vernduð. 

Spurður hvort ekki sé áhyggjuefni að uppbygging nýs íbúahverfis raskist verði svæðið friðlýst, þegar fyrir ríki mikill húsnæðisvandi hér á landi, kveðst ráðherrann ekki hafa trú á að hverfið leysi slíkan vanda.

„Það er eitthvað nýtt ef að áform Reykjavíkur um uppbyggingu leysi húsnæðisvandann, við þekkjum það því miður. Það er ekki markmiðið, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, með þessu hverfi að hafa ódýrar íbúðir fyrir fólkið sem þarf á því að halda. Þvert á móti er markmiðið að hámarka virði landsins til að fjármagna borgarlínu og samgöngusáttmálann“

„Í þessu tilfelli snýst þetta um hvað á að gera við grænu svæðin og þessar náttúru- og menningarminjar sem þarna eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert