Vantrauststillaga lögð fram á mánudag

Lýst verður yfir vantrausti gegn Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra á mánudag.
Lýst verður yfir vantrausti gegn Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra á mánudag. mbl.is/Árni Sæberg

Vantrauststillaga verður lögð fram á hendur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra á mánudag er þing kemur aftur saman.

Þetta segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is.

Inga Sæland telur að allir þingmenn stjórnarandstöðunnar muni styðja við vantrauststillögu gegn Svandísi sem hún kveðst ætla leggja fram á mánudag.

„Ég held að stjórnarandstaðan standi öll með okkur. Það mun enginn bakka upp eða verja þennan ráðherra vantrausti. Það verður mjög erfitt fyrir nokkurn þingmann að viðurkenna lögbrot, við erum einu sinni löggjafinn,“ segir Inga.

Er tillagan lögð fram vegna álits umboðsmanns Alþing­is, sem seg­ir að Svandís hafi með ólög­mæt­um hætti sett á tíma­bundið hval­veiðibann í sum­ar. 

„Jafnmikill lögbrjótur“ á mánudag og í síðustu viku

Hún segir ekki eftir neinu að bíða þó eldgosið í Grindavík fyrr í vikunni hafi átt umræðuna að undanförnu.

„Við vorum jafnvel að hugsa um það á tímabili að hugsa til þess að þau væru að fara að stíga inn í kjaraviðræður eða hvað þau væru að fara gera fyrir Grindvíkinga en ég get ekki séð að þau séu með neitt á borðinu fyrir það.“

Inga hafði vonast til þess að ríkisstjórnin myndi ráða úr þessu áður en þing kæmi saman en að nú virðist svo ekki ætla að verða. Jafnvel hafði hún vonast eftir því að Svandís myndi sjálf stíga til hliðar.

„Hún er jafn mikill lögbrjótur á mánudag og hún var í síðustu viku,“ segir Inga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka