Þriggja ára dómur yfir Einari stendur

Ein­ar Ágústs­son í héraðsdómi við aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn …
Ein­ar Ágústs­son í héraðsdómi við aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn honum og bróður hans vegna Zuism. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Einars Ágústssonar, sem hvað þekkt­ast­ur er fyr­ir að vera ann­ar bróðir­inn á bak við trú­fé­lagið Zuism, um áfrýjunarleyfi. Mun því dómur Landsréttar yfir Einari standa, en hann var í október í fyrra dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir fjársvik með því að hafa haft tugi millj­óna af þrem­ur ein­stak­ling­um og fé­lög­um. Sagðist Ein­ar ætl­a að stunda fjár­fest­ing­ar, en pen­ing­ana nýtti hann hins veg­ar í eig­in þágu.

Einar sótti um áfrýjunarleyfið, en ákæruvaldið lagðist gegn beiðninni. Taldi Einar að málið hefði verulega almenna þýðingu og að mikilvægt væri að fá úrlausn um það fyrir Hæstarétti. Þá væri ástæða til að ætla að málsmeðferð Landsréttar væri stórlega ábótavant og dómurinn bersýnilega rangur. Einnig er vísað til mikils dráttar á málsmeðferð, en brotin voru framin á árunum 2010 til 2012. Einnig telji Einar að endurskoða eigi sakfellingu út frá ákvæðum þágildandi laga um gjaldeyrismál.

Málið fór tvívegis í gegnum Landsrétt

Upp­haf­lega var Ein­ar dæmd­ur í þriggja ára og níu mánaða fang­elsi í Héraðsdómi Reykja­ness í júní 2017. Hann áfrýjaði mál­inu til Lands­rétt­ar sem stytti dóm­inn í þrjú ár. Ein­ar fór síðar fram á end­urupp­töku máls­ins sem End­urupp­töku­dóm­ur samþykkti og fór málið því aft­ur fyr­ir Lands­rétt.

Var end­urupp­tak­an samþykkt þar sem einn dóm­ari í mál­inu fyr­ir Lands­rétti hafði verið á meðal þeirra sem Sig­ríður Á. And­er­sen, þáver­andi dóms­málaráðherra, skipaði og voru und­ir í Lands­rétt­ar­mál­inu svo­kallaða.

Lands­rétt­ur komst í dag hins veg­ar að sömu niður­stöðu og áður, það er að dæma Ein­ar í þriggja ára fang­elsi.

Sætir upptöku tuga milljóna

Ein­ari er jafn­framt gert að greiða tveim­ur aðilum sem hann hafði haft fé af sam­tals tæp­lega 71 millj­ón auk vaxta.

Í héraðsdómi hafði þrota­búi fé­lags­ins Skaj­aquoda ehf., sem Ein­ar stýrði áður, verið gert að sæta upp­töku á 74 millj­ón­um króna sem voru á reikn­ing­um þess. Átti þessi upp­hæð að fara til greiðslu á einka­rétt­ar­kröf­um þeirra sem Ein­ar hafði haft fé af. Þrota­búið ákvað að áfrýja ekki þess­um hluta máls­ins og stóð hann því áfram.

Annað mál í gangi gegn Einari og bróður hans

Þetta er ekki eina dóms­málið sem Ein­ar hef­ur verið ákærður í á síðustu árum. Hann og bróðir hans, Ágúst Arn­ar Ágústs­son, voru báðir ákærðir í tengsl­um við rekst­ur trú­fé­lags­ins Zuism. Þeir voru báðir sýknaðir af ákæru um fjár­svik og pen­ingaþvætti í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í fyrra, en Rík­is­sak­sókn­ari áfrýjaði mál­inu til Lands­rétt­ar, en málið hefur verið sett á dagskrá Landsréttar 29. febrúar.

Bræðurn­ir tveir voru ákærðir fyr­ir að lát­ast reka trú­fé­lag sem upp­fyllti skil­yrði laga um slík fé­lög og svíkja þannig ríf­lega 85 millj­ón­ir króna út úr rík­inu í formi sókn­ar­gjalda. Sömu­leiðis voru þeir ákærðir fyr­ir pen­ingaþvætti á fjár­mun­un­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert