Hægist á landrisinu og verulegar líkur á gosi

Það hefur aðeins hægst á landrisinu sem er svipað eins …
Það hefur aðeins hægst á landrisinu sem er svipað eins og gerðist fyrir síðustu gos segir Benedikt Gunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir að landrisið við Svartsengi haldi áfram með svipuðum hraða og líkur á eldgosi á næstu dögum séu enn taldar verulegar.

„Það hefur aðeins hægst á landrisinu sem er svipað eins og gerðist fyrir síðustu gos og skjálftavirknin er frekar stöðug. Hún kemur og fer en mesta virknin er í ganginum,“ segir Benedikt við mbl.is.

Talsverð jarðskjálftahrina var á Reykjaneshryggnum í gær og mældist skjálfti að stærðinni 2,9 á sjöunda tímanum í gærkvöld og var hann sá stærsti sem hefur verið í þessari hrinu á svæðinu. Benedikt segir að ekki sé hægt að lesa mikið í þessa skjálfta. Hann segir að þeir komi í kviðum.

Um 6,5 milljónir rúmmetrar af kviku hafa flætt inn í kvikusylluna við Svartsengi að mati Veðurstofunnar.

„Þetta er svipað magn og var komið fyrir gosið 14. janúar,“ segir Benedikt.

Fylgjumst með dag og nótt

Metið þið það svo að um dagaspursmál sé að ræða hvenær byrji að gjósa?

„Já það er frekar líklegt og það gæti alveg orðið í þessari viku. Það gerir ekkert boð á undan sér. Við erum með stöðuga vakt á svæðinu og fylgjumst með dag og nótt,“ segir Benedikt.

Hann segir að ekki sé hægt að útiloka að fyrirvarinn verði styttri nú heldur en fyrir gosið 14. janúar. 

„Hann gæti orðið styttri en líklegra verður hann eitthvað svipaður. Það fer eftir því hvar kvikan kemur upp og það getur haft áhrif hvað fyrirvarinn er langur. Ef kvikan kemur upp við ganginn við Svartsengi getur fyrirvarinn orðið mjög stuttur. Ef það verður innskot sem fer einhverjar vegalengdir, í áttina að Grindavík eða norður, þá gengur kannski eitthvað aðeins meira á og getur tekið kvikuna lengri tíma áður en hún kemur upp,“ segir Benedikt.

Benedikt telur líklegast að gosstaðurinn verði á svæðinu frá Hagafelli að stóra Skógfelli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert