Virknin dregist saman og bundin við tvo gíga

Eldgosið hófst í gær.
Eldgosið hófst í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Það virðist hafa dregið heldur úr virkninni í eldgosinu á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells eftir því sem liðið hefur á nóttina. Þrír gígar voru framan af nóttu en nú virðist virknin vera bundin við tvo gíga.

Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hann segir erfitt að greina hraunstreymið núna og að það verði gert í birtingu.

GPS-gögn verða skoðuð á fundi klukkan 9.30 í dag af vísindamönnum Háskóla Íslands og Veðurstofunnar þar sem farið verður yfir stöðu mála. Nokkrir GPS-punktar hafa sýnt lækkun í þrýstingi, eins og gerist þegar eldgos hefst, en ekki er ljóst hvort þenslan heldur áfram.

Veðurstofan fundar einnig með vettvangsstjórn og svæðisstjórn í Grindavík klukkan 7.30. Farið verður yfir virkni næturinnar og veðurspá dagsins. Verkefnin framundan verða jafnframt rædd, að sögn Einars.

Búist við lítilli mengun

Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að vart geti orðið við einhhverja mengun af völdum eldgossins á vestanverðum Reykjanesskaga í dag en ekki er búist við því að hún verði mikil.  Spáð er hægri austanátt í dag en vindátt getur farið frá norðaustri í suðaustur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert