30 skjálftar frá miðnætti – Virkni við Eiturhól

Hraun ruddi sér leið inn í Grindavík í janúar.
Hraun ruddi sér leið inn í Grindavík í janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 30 jarðskjálftar hafa mælst í kvikuganginum við Svartsengi frá miðnætti og hafa þeir allir verið litlir. Enginn gosórói er á svæðinu, að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Samanlagt mældust um 65 skjálftar í kvikuganginum í gær og ef skjálftarnir halda áfram á sama hraða og frá miðnætti verða þeir enn fleiri í lok dags.

Um 0,4 milljónir rúmmetra af kviku bætast við undir Svartsengi á hverjum degi, að sögn Bjarka, og er magnið núna því líklega komið í rúmlega átta milljónir rúmmetra. Væntanlega hefur magnið því náð neðri mörkum. Ef horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúkagígaröðinni aukast líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8 til 13 milljónum rúmmetra.

20 skjálftar við Eiturhól

Skjálftavirknin hefur haldið áfram við Eiturhól á Mosfellsheiði, norður af Hellisheiðarvirkjun og suðvestur af Þingvallavatni. 

Frá miðnætti hafa orðið þar um 20 skjálftar og voru þeir stærstu á milli 2,5 og 2,9 að stærð. Í gær urðu um 100 skjálftar á þessu svæði.

Bjarki segir að Veðurstofan muni kanna þessa skjálftavirkni í dag, meðal annars hvort hún tengist dælingu í borholu á Hellisheiði.

Þessi virkni tengist ekki atburðunum á Reykjanesskaga, bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert