Efling mætir aftur til fundar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hákon

Efling hefur boðað komu sína á samningafund breiðfylkingar stéttafélaga og Samtaka atvinnulífsins sem boðaður hefur verið í Karphúsinu klukkan 9 í fyrramálið.

Efling ákvað í gær að mæta ekki til fundar með breiðfylkingunni í gær en Starfsgreinasambandið og Samiðn funduðu með Samtökum lífsins.

„Efling mætir á fundinn með breiðfylkingunni  í fyrramálið og seinna á morgun mun samninganefnd Eflingar funda með Samtökum atvinnulífsins,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, við mbl.is.

Sólveig segist hafa átt samtöl við framkvæmdastóra Samtaka atvinnulífsins í kjölfar þess að Efling ákvað að sniðganga fundinn í gær. Spurð hvort það sé kominn einhver samningatónn á nýjan leik segir Sólveig:

„Við skulum sjá hvað gerist á morgun. Það er svo sannarlega of snemmt að lýsa því yfir hér og nú hvort Samtök atvinnulífsins séu búin að finna leið til að koma sér úr þeim ógöngum sem þau hafa komið sér í,“ segir Sólveig.

Kemur SA lausnarmiðað til leiks á fundinn?

Hvernig mætir þú til fundar á morgun. Ert þú bjartsýn?

„Ég held að á þessum tímapunkti sé ekki skynsamlegt að vera lýsa því hvort það sé mikil bjartsýni sé til staðar. Efling hefur í gegnum allar þessar samningaviðræður mætt full af samningsvilja. Við höfum verið tilbúin til þess að koma á móts við Samtök atvinnulífsins um ýmis mál og þess vegna var þetta okkur mikið áfall í gær þegar við áttuðum okkur á þeirri stöðu sem upp var komin.“

Sólveig segir að spurningin sé sú hvernig Samtök atvinnulífsins mæti til leiks á fundinn. Hvort þau komi lausnarmiðuð og séu tilbúin til að rétta Eflingu eitthvað sem er nægilega mikils virði til að atburðarrásin, sem nú sé farin af stað, endi með öðrum hætti en gerist ef þau gera það ekki. Hún segir að það sé spurningin sem SA þurfi að svara.

Verkfallsboðun auglýst á morgun

Samninganefnd Eflingar ákvað í gærkvöld að atkvæðagreiðsla um boðun vinnustöðvunar hjá ræstingafólki fari fram á meðal félagsmanna.

„Við erum bara að undirbúa þetta á fullu. Við erum að fara yfir kjörskrá, vinnudeilusjóðinn og hvernig styrkir verða greiddir út. Kjörstjórn Eflingar fundar í dag til þess að fara yfir niðurstöðu samninganefndar Eflingar og tyggja að þar sé allt gert með réttum hætti. Verkfallsboðunin verður auglýst á morgun og atkvæðagreiðslan hefst á mánudaginn klukkan 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert