„Ég reyndi að vekja þetta ágæta fólk til umhugsunar“

Vilhjálmur gengur hóflega bjartsýnn til fundar í Karphúsinu á morgun.
Vilhjálmur gengur hóflega bjartsýnn til fundar í Karphúsinu á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, kveðst hóflega bjartsýnn fyrir fundi ríkissáttasemjara í kjaradeilu breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins sem boðaður hefur verið klukkan 9.00 í fyrramálið. 

Ekki var fundað í kjaradeilunni í dag, en síðasti fundur fór fram í Karphúsinu í gær. Þangað mættu þó ekki allir samningsaðilar því Efling sá ekki tilganginn með því að mæta til fundarins. 

Við ætlum að reyna að vinda ofan af þessu í eitt skipti fyrir öll

Vilhjálmur segir Eflingu og Starfsgreinasambandið með sambærilegar kröfur á öllum sviðum. Því hafi félögin unnið þétt saman í kjaraviðræðunum og sérstaklega þegar kemur að leiðréttingu á kjörum ræstingarfólks. 

„Það hefur verið lenska á íslenskum vinnumarkaði að að þeir sem starfa í ræstingum þurfi ætíð að vera á lökustu kjörunum. Við ætlum að reyna að vinda ofan af þessu í eitt skipti fyrir öll. Þetta er af stórum hluta kvennastörf og fólk af erlendu bergi brotið svo við munum ekki standa upp frá þessu borði fyrr en við náum að laga þetta.“

Spurður hvers vegna Starfsgreinasambandið hafi ákveðið að mæta í Karphúsið í gær, þegar Efling sá engan tilgang með því, ef kröfurnar eru að stórum hluta þær sömu svarar Vilhjálmur því til að hann og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafi komst að sameiginlegri niðurstöðu þess efnis að hann myndi mæta einn til fundarins, sem formaður Starfsgreinasambandsins, og eiga samtal við SA. 

Bað þau um að taka verkefnið meira alvarlega 

Vilhjálmur áréttir þó að ekki hafi verið um formlegar viðræður í kjaradeilunni að ræða. Hann hafi einungis verið að fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp var komin. 

„Það var ekkert verið að ræða neina þætti kröfugerðarinnar þennan dag sem að efling sat heima enda vorum við sammála um það, ég og Sólveig Anna, að slíkar viðræður færu ekki fram,“ segir hann og útskýrir að einungis hafi verið um stöðufund að ræða. 

Fannst þér á þig hlustað á þessum stöðufundi?

„Ég fór bara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin og greindi forsvarsmönnum SA frá vitneskju minni um það að Sólveig Anna hygðist óska eftir því, við sína samninganefnd, að efna til kosninga um verkfall hjá ræstingafólki. Ég gerði þeim þetta ljóst,“ segir Vilhjálmur og bætir við:

„Ég reyndi að vekja þetta ágæta fólk til umhugsunar að þau yrðu að gjöra svo vel að koma fram af meiri virðingu og taka þetta verkefni meira alvarlega heldur en þau hafa gert til þessa.“

Breyting á launaliðnum fyllti mælinn 

Vilhjálmur segir það eiga eftir að koma fljótlega í ljós, á fundi morgundagsins, hvort breyting hafi orðið á. Inntur eftir frekari útskýringum á því hvaða breytingar þurfi að verða útskýrir Vilhjálmur hvað það var sem fyllti mælinn og kom viðræðunum á þann stað sem þær eru nú á. 

„Við skulum hafa það hugfast að það var ekki bara verið að breyta launasamsetningunni til þeirra sem eru hærra launaðir, ef að þannig má að orði komast, heldur var líka krafa um tekjulækkun hjá þúsundir okkar félagsmanna, eða þeim sem starfa á veitingahúsum og víða.“

En erum við þá að tala um iðnaðarmenn sem þá hærra launuðu í þessu samhengi?

„Ja, það liggur alveg fyrir að meðallaun annarra hópa innan Alþýðusambandsins er töluvert hærra heldur en hjá félagsmönnum innan starfsgreinasambandsins og Eflingar. Það sýna alla tölfræðirannsóknir sem gerðar hafa verið á íslenskum vinnumarkaði.“

Öruggt að á endanum þarf að undirrita kjarasamning 

Þrátt fyrir allt segir Vilhjálmur ljóst að á endanum þurfi að undirrita kjarasamning „Það er það eina sem er öruggt í þessu máli.“ Hversu langan tíma það mun taka segir hann að tíminn verði að leiða í ljós. Tíminn þurfi jafnframt að leiða í ljós hvort það verði hægt án átaka en bæði Efling og Starfsgreinasambandið hafa boðað til kosninga um verkfallsaðgerðir hjá ræstingafólki innan félaganna. 

Spurður hvort hann telji líklegt að samningar náist án átaka svarar Vilhjálmur: 

„Það þarf að verða umtalsverð viðhorfsbreyting af hálfu SA ef að þetta á ekki að fara afar illa. Ég leyfi mér að segja það og vill staðfesta að það ríkir gríðarlega reiði á meðal t.d. formanna innan Starfsgreinasambandsins. Einvörðungu vegna þess að við höfum lagt okkur í líma við að vinna þetta verkefni af fullri einurð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka