„Dagaspursmál ef ekki klukkutímaspursmál“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur spáir gosi á allra næstu dögum eða …
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur spáir gosi á allra næstu dögum eða klukkustundum. mbl.is/Arnþór

„Við erum komin að þolmörkum og ég held það sé dagaspursmál ef ekki klukkutímaspursmál hvenær gýs,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. Kvika kæmi þá upp í Sundhnúkagígaröðinni á Reykjanesskaga. 

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur við jarðvísindastofnun Háskóla Íslands spáir einnig gosi um helgina.

Gosið yrði svipað og síðasta gos, þann 8. febrúar. Þá opnaðist 3 kílómetra löng sprunga í Sundhnúkagígaröðinni og flæddi hraun í kjölfarið yfir Grindavíkurveg. Hraun náði ekki til Grindarvíkurbyggðar þá líkt og varð raunin í janúar.

Aflmikið í byrjun en detti síðan niður

„Ég held þetta verði að öllum líkindum endurtekið efni. Það eru langmestar líkur á því að við fáum svipað gos og síðast og á svipuðum stað. Allt bendir til þess að gosið komi á svipuðum tíma og síðast,“ segir hann, sé tekið tillit til kvikumagnsins.

„Þegar þetta fer af stað er líklegt að þetta verði aflmikið í byrjun og detti síðan hratt niður. Þetta er tiltölulega lítið rúmmál og þá myndast hraun af svipaðri stærð og síðast.“

Hraunflæðið stærsti óvissuþátturinn

Stærsti óvissuþátturinn er stefna hraunsins, að sögn Þorvaldar. Útilokar hann ekki að hraun flæði aftur yfir Grindavíkurveg þar sem hraunið geti runnið talsverða vegalengd.

„Hvernig það flæðir akkúrat, það er meiri óvissa yfir því. Það gæti flætt til austurs og þá hefur það meiri möguleika á að breiða úr sér og halda sig frá svæðinu austan við Sundhnúka. Ef það fer til vesturs er líklegra að það muni afmarka sig fljótt við ákveðnar flutningsrásir. Þá getur það farið töluverða vegalengd. Þá er sem sagt möguleiki á að þetta fari líka yfir Grindavíkurveg.“ 

Spurður út í varnargarða í kringum Svartsengi og Grindarvíkurbæ segir Þorvaldur óvíst hvort á þá reyni í þessu gosi. Hann sé sannfærður um að þeir muni sinna sínu hlutverki, komi til þess, en öllu óheppilegra væri ef sprunga opnaðist í gegnum þá eða innan þeirra. Ekkert bendir til slíks sem stendur.

Veðurstofan fylgist með gangi mála og er frekari upplýsinga um kvikumagn undir Svartsengi að vænta í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert