Kvikan ekki að brjóta sér leið til yfirborðs sem stendur

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat sem gildir í sólarhring að …
Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat sem gildir í sólarhring að öllu óbreyttu. Kort/Veðurstofa Íslands

Skjálftahrinan við Sundhnúkagígaröðina hófst á suðurenda gossprungunnar þar sem gaus 18. desember. Kvika virðist aftur á móti ekki vera að brjóta sér leið upp á yfirborðið í augnablikinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands en eins og fram hefur komið hefur smáskjálftahrina við Sundhnúkagígaröðina. Skjálftavirknin færist nú í suður og er nú talin mest nálægt Sýlingarfells.

Hófst á enda gossprungunnar

Veðurstofan segir virknina benda til þess að kvikuhlaup sé hafið og eldgos getur hafist í kjölfarið. Hrinan hafi hafist á suðurenda gossprungunnar þar sem gaus 18. desember.

Þrýstingsbreytingar í borholukerfum HS Orku benda til þess að kvikuhlaup sé hafið, að sögn jarðeðlisfræðingsins Benedikts Gunnars Ófeigssonar á Veðurstofu Íslands.

Veðurstofan hefur uppfært hættumatskort vegna jarðhræringanna.

Aflögunin mun minni

Aflögunin sem nú mælist er mun minni en áður hefur mælst í aðdraganda eldgosa. Það gæti bent til þess að minni kvika sé á ferðinni nú en í fyrri eldgosum.

Dýpi skjálftavirkninnar bendir ekki til þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs eins og staðan er núna.

Ein þeirra sviðsmynda sem nefnd hefur verið er að kvikuhlaup verði án þess að til eldgoss komi, segir að lokum í frétt Veðurstofunnar.

Ekki hefur hægst á landrisinu við Svartsengi.
Ekki hefur hægst á landrisinu við Svartsengi. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert