Síðasti séns fyrir sjálfstæðismenn að sanna sig

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, segir í samtali við mbl.is að „býsna stór gjá“ hafi myndast innan ríkisstjórnarinnar vegna kaupa Landsbankans á tryggingafélaginu TM.

Hann telur að Sjálfstæðismenn muni líklega ekki fylgja eftir stefnu sinni.

Skiptar skoðanir innan stjórnarinnar

Greint var frá því í gær að Kvika hefði samþykkt til­boð Lands­bank­ans í TM og að einkaviðræður myndu hefjast um kaup­in.

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir fjár­málaráðherra brást við í kjöl­farið og sagði viðskipt­in ekki verða að veru­leika með henn­ar samþykki nema sölu­ferli Lands­bank­ans myndi hefjast.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að hún muni ekki taka þátt í að selja hlut í bankanum. 

„Ríkistryggingafélag“

„Mér líst náttúrlega ekki sérlega vel á þessa áframhaldandi ríkisvæðingu," segir Sigmundur Davíð, spurður hvernig honum lítist á kaupin og á þar við að TM verði með kaupunum „ríkistryggingafélag“. 

Sigmundur Davíð segir ekki síður áhugavert að sjá, „þennan fullkomna ágreining sem virðist vera í ríkisstjórninni um málið“.

Hann segir sérstakt hvernig málið beri að, en Þórdís Kolbrún greindi frá afstöðu sinni í Facebook-færslu í gærkvöldi. Sigmundur Davíð nefnir ágreining um hvort fjármálaráðherra hafi í raun og veru eitthvað um viðskiptin að segja. 

Katrín tók sterkt til orða

Sigmundur segir að sér hafi fundist Katrín síðan taka býsna sterkt til orða er málið var rætt í þinginu í dag. 

„Og í raun og veru segja það hreint út að fjármálaráðherrann væri að tala gegn stefnu ríkisstjórnarinnar.“

Hann segir Katrínu hafa réttilega minnt á að það standi til að klára fyrst söluna á Íslandsbanka, áður en farið verði í að selja hlut í Landsbankanum.

Það sé þó rétt sem að Þórdís minnist á í færslunni að samkvæmt eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, sem að ríkisstjórnin samþykkti árið 2017, sé meðal annars kveðið á um að draga úr eignarhaldi ríkisins í Landsbankanum. 

„En nú segir forsætisráðherra að það komi ekki til greina að selja hlut í Landsbankanum. Þannig að stefnan hjá stjórninni – og sérstaklega á milli forsætis- og fjármálaráðherra – er búin að færast algjörlega í sitthvora áttina,“ segir hann.

„Þetta er orðin býsna stór gjá hjá þessum stjórnarflokkum og það í máli sem virðist ekki hafa verið nokkru sinni rætt í ríkisstjórn, heldur komi bara upp núna fimm eða sex mánuðum eftir að þessar þreifingar hófust um þessi kaup.“

Greint var frá því í gær að stjórn Kviku banka …
Greint var frá því í gær að stjórn Kviku banka hefði ákveðið að taka til­boði Lands­bank­ans um kaup á hluta­fé TM trygg­inga hf.

Hvað myndir þú vilja að gerðist í þessum viðskiptum?

„Ég held að það væri ekki heppilegt að ríkisvæða tryggingafélag. En, það hvað einn ráðherra getur gert – þó það sé fjármálaráðherra – það virðist vera mjög óljóst. Þrátt fyrir afdráttarlausa yfirlýsingu ráðherrans. Sérstaklega þegar hún hefur ekki ríkisstjórnina með sér.“

Telur að bankinn haldi sínu striki

Sigmundur Davíð segir erfitt að spá fyrir hvað muni gerast, en í ljósi reynslunnar telji hann að bankinn muni halda sínu striki óháð afstöðu Þórdísar, eins og Lilja Björk Ein­ars­dótt­ir banka­stjóri sagði í viðtali við mbl.is í dag.

„Sem er enn önnur áminning um það hverjir stjórna raunverulega,“ segir Sigmundur Davíð.

Hann telur að viðskiptin muni fara fram og Sjálfstæðismenn muni kyngja því, „líkt og þeir hafa kyngt svo mörgu öðru áður“.

Límið í ráðherrastólnum sterkt 

Sigmundur Davíð segist þó telja að um síðasta séns sjálfstæðismanna sé að ræða, til að stíga niður fæti í stjórnarsamstarfinu og fylgja sinni stefnu. 

„Það er líklega ástæðan fyrir því með hvaða hætti fjármálaráðherra tók til orða og stillti hinum stjórnarflokkunum upp við vegg, með þessum sérstaka hætti.“

Hann ítrekar að í ljósi reynslunnar telji hann líklegt að sjálfstæðismenn fylgi ekki eftir sinni stefnu. 

Telurðu að þetta mál gæti orðið útslagið í stjórnarsamstarfinu?

„Þetta mál ber öll merki þess að geta orðið það og eitt af þessum málum sem að kannski enginn sá fyrir, en verður grundvallarmál sem að brýtur – sem að var orðið býsna brothætt fyrir – stjórnarsamstarfið.

En þó er ég – í ljósi reynslunnar – orðinn varfærinn við að spá. Því að það hafa alloft komið upp aðstæður þar sem að ráðherrar jafnvel og stjórnarþingmenn hafa sagt hingað og ekki lengra, nú er þetta úrslitastundin, og svo er það ekki úrslitastundin. Límið í ráðherrastólnum er sterkara en prinsippin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert