Íbúar og fyrirtæki mega vera í Grindavík

Eldgos hófst í nágrenni Grindavíkur á laugardagskvöld.
Eldgos hófst í nágrenni Grindavíkur á laugardagskvöld. Ljósmynd/Almannavarnir/Björn Oddsson

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að heimila Grindvíkingum og þeim sem starfa í bænum að dvelja og starfa þar.

Ekki er mælt með því að fólk dvelji eða starfi í bænum að næturlagi, að því er segir í tilkynningu.

Lítil sem engin hreyfing er nú á hraunrennsli bæði inn í Svartsengi og eins fyrir ofan Suðurstrandarveg. Þess vegna telur lögreglustjórinn að ekki stafi ógn af hraunrennsli inni í Grindavík við núverandi aðstæður.  Þá er fylgst vel með hraunrennsli fyrir ofan Suðurstrandarveg sem ógnar ekki veginum eins og staðan er í dag.  

„Fylgst er vel með mengun inn á merktu hættusvæði.  Í dag er vindátt hagstæð og ekki ætti að gæta mengunar inn í Grindavík. Ef og þegar hætta er talin á að loftmengun ógni heilsu manna getur komið til þess að aðgengi inn í Grindavík verði takmarkað,” segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert