Heyrði fyrst af kaupunum í tilkynningu

Þórdís Kolbrún Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, segir vangaveltur um að …
Þórdís Kolbrún Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, segir vangaveltur um að hún hafi sofið á verðinum draga athygli frá kjarna málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, kveðst hafa fyrst heyrt af því í tilkynningu að Landsbankinn hefði ákveðið að festa kaup á TM frá Kviku banka fyrir tæpa 29 milljarða króna.

Segir hún vangaveltur um að hún hafi sofið á verðinum draga athygli frá kjarna málsins.

Þá furðar hún sig á því að bankinn skili ekki frekar arð í ríkissjóð, fremur en að kaupa fyrirtæki í einkaeign.

Þórdís flutti munnlega skýrslu um fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM á Alþingi fyrr í dag.

Bankasýslan ekki fengið formlegt erindi

Þórdís sagði kaupin á skjön við eigendastefnu ríkisins og sagði að hún væri í grundvallaratriðum ósammála því að ríkisbanki yki umsvif sín og stígi inn á samkeppnismarkað.

Þá sagði hún að bankinn gæti frekar greitt viðbótararð í ríkissjóð en að gera tilboð í tryggingafélag:

„Svo má benda á að væri Landsbankinn ekki að gera tilboð í tryggingafélag fyrir 29 milljarða gæti bankinn greitt viðbótararð í ríkissjóð allra landsmanna upp á marga milljarða,“ sagði hún og benti á mikilvægi þess að fjármagna aðgerðir til þess að stuðla að friði á vinnumarkaði.

Þórdís fór fram á svör Bankasýslunnar um samskipti hennar við Landsbankann er varða kaupin og kom þar fram að Bankasýslunni hefði ekki borist formlegt erindi frá Landsbankanum um viðskiptin. 

Draga athygli frá kjarna málsins

„Allar vangaveltur um að ég hafi mátt vita, lesið í orðróm, eða sofið á verðinum eru tilraun til að draga athygli frá kjarna máls,“ sagði Þórdís í ræðu sinni.

Rakti hún atburðarás málsins og að hún hefði vitað af áhuga bankans á kaupunum, en hefði fyrst heyrt af kaupunum eftir tilkynningu þess efnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert