Ferðamynstur Íslendinga nálgast fyrra horf

Íslendingar eru duglegir að ferðast til útlanda.
Íslendingar eru duglegir að ferðast til útlanda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Liðlega átta af hverjum tíu landsmönnum fóru í utanlandsferð á síðasta ári og ferðaðist svipað hlutfall innanlands. 

Ferðamynstur landsmanna virðist þannig færast í sama horf og fyrir heimsfaraldur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu. 

Umhverfisvitund hefur tæpast áhrif á utanlandsferðir

Í könnun Ferðamálastofu voru landsmenn meðal annars inntir eftir því hvort eitthvað stæði í vegi fyrir því að þeir ferðuðust innanlands og nefndu tveir af hverjum fimm hátt verðlag.  

Þá sögðu um 25,2% svarenda að veður stæði í vegi þeirra. 

Það vekur eftirtekt að umhverfisvitund hefur ekki mikil áhrif á ferðalög landsmanna til útlanda, en þrír af hverjum fimm segjast ekki ætla að fækka utanlandsferðum á næstunni.

Þannig sögðust 12,5% sammála fullyrðingu um að þeir ætluðu að fækka utanlandsferðum á næstu misserum af umhverfisástæðum, 29,7% sögðust hvorki sammála né ósammála og 57,8% sögðust ósammála.

Vestfirðir mest spennandi

Þegar landsmenn voru spurðir hvaða staðir eða landsvæði þeim fyndist mest spennandi til ferðalaga á Íslandi nefndu 16,7% svarenda Vestfirði. 12,4% sögðu Austurland eða Austfirði mest spennandi, 7,4% töldu Norðurland vera það og 6,9% sögðu Suðurland. 

Hálendið og Snæfellsnes voru sjaldnast nefnd.

Meginþorri þjóðar ferðaðist erlendis 

80,1% landsmanna ferðuðust til útlanda á síðasta ári sem er hækkun um 6,4% prósentustig frá árinu 2022. 79,5% ferðuðust til útlanda árið 2019 og 83,1% árið 2018.

Meðalfjöldi gistinótta á ferðalögum erlendis var 23,5 nætur árið 2023 og hafa þær aldrei mælst jafn margar í könnun Ferðamálastofu. 

Vinsælustu áfangastaðirnir voru Spánn, einkum Kanaríeyjar, og Portúgal. Þar á eftir komu Danmörk, Bretlandseyjar, Bandaríkin, Kanada, Ítalía og Þýskaland. 

Könnunin er byggð á svörum 1.197 einstaklinga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert