Þó nokkrar vísbendingar borist vegna þjófanna

Þjófarnir höfðu á brott með sér 20-30 milljónir króna í …
Þjófarnir höfðu á brott með sér 20-30 milljónir króna í ráninu í Hamraborg í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Þjófanna sem stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg í gærmorgun er enn leitað.

Þetta staðfestir Heimir Ríkarðsson lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is. Þá er Yaris-bifreiðin sem þjófarnir voru á sömuleiðis ófundin en hún var með tvær mismunandi númeraplötur, NMA 87 að aftan og SLD 43 að framan, en báðum þessum skráningarnúmerum hafði verið stolið af öðrum ökutækjum.

Heimir segir að þó nokkuð margar vísbendingar hafi borist eftir að lögreglan birti mynd af þjófunum í Yaris-bifreiðinni í gær.

„Við erum bara á fullu að rannsaka þetta mál, elta uppi vísbendingar og reyna að hafa upp á þjófunum. Það er ekki vitað hverjir þessir menn eru,“ segir Heimir. Hann segir að búið sé að taka skýrslur af nokkrum vitnum í málinu.

Þjófarnir höfðu á brott með sér 20-30 milljónir króna sem voru í tveimur töskum en þeir tóku sjö töskur úr verðmætaflutningabílnum. Þær fundust allar í gær og eru til rannsóknar hjá lögreglu.

Hluti fjármunanna ónýtur

Fram kom í tilkynningu frá Öryggismiðstöðinni í gær að féð hefði verið í sérstökum læstum verðmætatöskum sem búnar eru litasprengjum sem eyðileggja verðmæti ef tilraun er gerð til þess að nálgast þau.

Heimir segir að litasprengja hafi sprungið í það minnsta í einni töskunni og þar með sé hluti fjármunanna ónýtur en hann segist ekki vita hversu háa fjárhæð sé um að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert