Aukin bindiskylda beinir sjónum að bönkunum

Seðlabanki Íslands hækkaði bindiskyldu bankanna. Það kann að gefa til …
Seðlabanki Íslands hækkaði bindiskyldu bankanna. Það kann að gefa til kynna áhyggjur af verðbólguþrýstingi. Samsett mynd

Ákvörðun Seðlabanka Íslands um hækkun bindiskyldu úr 2% í 3% setur bankana á þá stöðu að þeir þurfa að taka ákvörðun um það hvort þeir muni sætta sig við minni tekjur eða hvort þeir muni breyta verðlagningu á inn- og útlánum.

Svo segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Hann segir það koma á óvart að ákvörðunin sé tilkynnt í kjölfar auka fundar í stað þess að vera t.a.m. tilkynnt samhliða vaxtaákvörðun Seðlabanka fyrir tveimur vikum þar sem tilkynnt var um óbreytta vexti.

Tilgangurinn að minnka tap Seðlabanka

Hann segir tilgang aðgerðarinnar að minnka vaxtamun Seðlabankans. Hann fær erlenda vexti af gjaldeyrisforðanum, sem eru lágir, en greiðir íslenska stýrivexti til bankanna af stærstum hluta innlána þeirra. Til að einfalda málið munu um 30 milljarðar króna af lausafé bankanna ekki skila vaxtatekjum eftir ákvörðunina.  

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Aðsend

„Rekstur bankans er því í mínus. Á fyrstu níu mánuðum ársins hljóp þetta á nokkrum tugum milljarða. En með því að binda fé sem nemur þessu auka prósenti, þá minnkar taprekstur bankans,“ segir Jón Bjarki.

„Þetta hefur auðvitað áhrif á getu bankanna til útlána. Þegar bankarnir fá ekki vexti af þessum peningum þá verða þeir annað hvort að taka á sig minni vaxtatekjur, hækka vexti á öðrum útlánum eða lækka vexti á innlánum,“ segir Jón Bjarki.

Ekki endilega lengra í vaxtalækkun 

Hann segir að deila megi um ákvörðunina og hvort hún muni styrkja gjaldeyrisforða bankans.

„Þetta er ekki aðgerð sem breytir verulega stóru myndinni um aðhald Seðlabankans en þetta herðir frekar á og mun draga að einhverju leyti úr útlánagetu bankanna. Þetta er hliðstæða við að herða aðeins á stýrivöxtum. Hefur ekki sömu áhrif en styður við peningastefnuna eins og Peningastefnunefnd orðar þetta,“ segir Jón Bjarki.

Hann segir ekki hægt hægt að fullyrða að aðgerðin geri það að verkum að minni líkur séu á vaxtalækkun á komandi mánuðum.

„En þetta sýnir vissulega að menn hafa áhyggjur af verðbólguvæntingum og verðbólguþrýstingi. Þetta er að einhverju leyti viðbrögð við því en það er ekki hægt að festa fingur á það hver áhrifin verða,“ segir Jón Bjarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert