Stjórn VG fundar í dag: Tekur Guðmundur Ingi við?

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Stjórn stjórnmálahreyfingar Vinstri grænna mun funda í dag klukkan 15. Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður er varamaður í stjórn hreyfingarinnar.

Hún segir að ef Katrín Jakobsdóttir ákveður að segja af sér sem forsætisráherra og bjóða sig fram til forseta sé sjálfgefið að hún muni hætta sem formaður flokksins.

„Það er eðlilegt að forsetaframbjóðendur hætti beinum afskiptum af stjórnmálum frá og með þeim tíma sem þeir lýsa yfir framboði,“ segir Álfheiður.

Þá mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, núverandi varaformaður VG verða formaður flokksins þar til landsfundur verður boðaður.

Álfheiður Ingadóttir
Álfheiður Ingadóttir Rósa Braga

Katrín var endurkjörin sem formaður flokksins á landsfundi í fyrra. Nú stendur yfir ríkisstjórnarfundur þar sem tíðinda er að vænta af framboði hennar. 

„Samkvæmt lögum flokksins er landsfundur boðaður á næsta ári. En ef það verður kosið í haust eða næsta vor þá er einboðið að landsfundur verður haldinn áður. Þar með myndi forystan fá endurnýjað umboð til að fara í kosningar,“ segir Álfheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert