Skrökva vonandi ekki að forsetanum

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor segir stærstu tíðindi blaðamannafundar Guðna Th. Jóhannessonar forseta í dag hafa verið að formenn stjórnarflokkanna hefðu gefið það fastlega til kynna að ákvörðun um nýjan forsætisráðherra muni liggja fyrir fljótlega ellegar gætu þeir hafa skrökvað að forsetanum. 

Guðni fundaði með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á Bessa­stöðum í dag. Hann samþykkti lausn­ar­beiðni henn­ar en fól henni að sitja áfram sem ráðherra þar til nýr tek­ur við. 

Katrín hefur þegar sagt af sér sem formaður Vinstri grænna og þá mun hún segja af sér þingmennsku á morgun er þing kemur saman eftir páskafrí. 

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son mun gegna embætti for­manns Vinstri grænna í …
Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son mun gegna embætti for­manns Vinstri grænna í stað Katrín­ar þar til ný for­ysta verður kos­in. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisstjórnin heldur áfram sem starfsstjórn

Hefur Katrín einhver völd þegar hún hefur sagt af sér þingmennsku en er enn forsætisráðherra?

„Venjulega hefur nú verið litið svo á að þegar að forsætisráðherra segir af sér eða biðst lausnar fyrir sig og sína stjórn, að þá er ríkisstjórnin beðin um að halda áfram sem starfsstjórn,“ segir Ólafur og bætir við að ekki sé ætlast til þess að slík stjórn taki meiriháttar ákvarðanir. 

„Heldur í rauninni bara reki þetta frá degi til dags. Þannig að ef eitthvað óvænt kemur upp á þá náttúrlega þarf að bregðast við en þetta er meginreglan – að stjórnin geri ekki neitt stórt eða umdeilt.“

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur.
Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur. mbl.is/Styrmir Kári

Ekki hægt að gefa nákvæma tímasetningu

Guðni var ítrekað spurður af blaðamönnum hvenær ákvörðun stjórnarflokkanna þurfi að liggja fyrir um nýjan forsætisráðherra.

Hvenær telur þú að hún þurfi að liggja fyrir?

„Það er eins og Guðni sagði réttilega. Það er náttúrulega bara matsatriði,“ svarar Ólafur og bætir við að ekki sé hægt að gefa nákvæma tímasetningu. 

Guðni forseti á blaðamannafundinum á Bessastöðum í dag.
Guðni forseti á blaðamannafundinum á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eyþór

Líkurnar á að samstarfið springi litlar

Helstu tíðindi blaðamannafundarins að mati Ólafs voru hvað Guðni var skýr með að formenn stjórnarflokkanna hefðu gefið skýrt til kynna að þeir ætluðu að halda stjórnarsamstarfinu áfram. 

„Og hann sagðist fastlega búast við því að það myndi gerast mjög fljótlega. Þannig að verður maður ekki að taka mark á því, að ef að formenn stjórnarflokkanna hafa gefið sterklega til kynna að þetta muni ganga mjög fljótt, að þeir séu nú ekki að skrökva að forsetanum. Þannig að maður býst við því að þetta ætti að geta gerst mjög fljótt.“

Hann segir að ef ríkisstjórnarsamstarfið springi þá sé komið á allt annað ástand. 

„En líkurnar á því í augnablikinu eru mjög litlar.“

Útilokað að VG haldi forsætisráðherrastólnum

Ólafur segir ómögulegt að segja til um hver verði næsti forsætisráðherra en hann hefur haldið því fram að líklegast taki Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, við. 

„En það er engan veginn hægt að útiloka að það fari annað hvort til Bjarna [Benediktssonar] eða þá Þórdísar Kolbrúnar [Gylfadóttur].“

Þá segir hann líklegast að Vinstri grænir fái nýjan ráðherra. 

„Það er nánast útilokað að Vinstri græn haldi forsætisráðherrastólnum, en ég held þá að þeir hljóti að fá einhvern inn. Það gætu náttúrulega orðið frekari hrókeringar,“ segir Ólafur og nefnir að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafi verið orðuð við innviðaráðuneytið. 

Pólitískir forsetar þekktir 

Er ekkert athugavert við það að ef Katrín verður kosin forseti að hún leiði ríkisstjórn sinna gömlu kollega?

„Stjórnskipulega er ekkert að því,“ segir hann og nefnir að í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar hafi hann lent í átökum við sína fyrrverandi samstarfsmenn í stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á árunum eftir hrun. 

„Hann var þar í raun í slag við sína fyrri bandamenn. Menn geta haft alls konar skoðanir á því hvort að það sé heppilegt að forsetinn hafi verið í pólitík. En það er ekkert stjórnskipulegt sem mælir gegn því,“ segir Ólafur og bætir við að við höfum haft pólitíska forseta sem hafa skipt sér af stjórnmálum. 

Hann nefnir að Katrín hafi verið mikill sáttasemjari í þessari ríkisstjórn og engin ástæða til að halda að hún fari að draga taum einhvers er hún verður kjörin. 

„En það er auðvitað kjósendanna að meta þetta.“

Frá ríkisráðsfundi ríkisstjórnarinnar 31. desember.
Frá ríkisráðsfundi ríkisstjórnarinnar 31. desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert