Gæti kallað á stjórnarskrárbreytingar

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hélt ávarp að loknum fyrri …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hélt ávarp að loknum fyrri ríkisráðsfundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands telur að vert sé að ræða að setja ný ákvæði í stjórnarskrá um starfsstjórn, í ljósi þess að Katrín Jakobsdóttir, fráfarandi forsætisráðherra, sagði af sér embætti í fyrradag. Þetta sagði hann í ávarpi að loknum ríkisráðsfundi á Bessastöðum í kvöld.

Sagði Guðni að ræða þyrfti hvort setja ætti í stjórnarskrá ákvæði um starfsstjórn, takmarkað starfssvið starfsstjórnar og þar frameftir götunum. 

Þó lagði Guðni áherslu á að stjórnskipan landsins hafi virkað við þær aðstæður sem upp komu. Katrín Jakobsdóttir, baðst lausnar í fyrradag en Guðni fól henni að sitja áfram þar sem enn átti eftir að finna arftaka hennar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Virkaði eins og vera ber“

„Stjórnskipan landsins hélt og virkaði eins og vera ber við aðstæður sem voru vissulega óvenjulegar. Í fyrradag gekk Katrín Jakobsdóttir á minn fund og baðst lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti. Þá lá ljóst fyrir að formenn stjórnarflokkanna þriggja hygðu á að halda áfram samstarfi,“ sagði Guðni og bætti við að ekki hafi legið fyrir hver yrði forsætisráðherra og því hafi starfsstjórn tekið við. Sömuleiðis ætti stjórnskipan landsins að tryggja sveigjanleika.

Þá nefndi Guðni að breytingar á forsetakafla stjórnarskrárinnar væru æskilegar, þegar hann var spurður um fjölda meðmælenda sem forsetaframbjóðandi þarf að hafa. Sá fjöldi er bundinn í stjórnarskrá og hefur haldist óbreyttur um langa hríð en 1.500 meðmælendur þarf til kjörgengis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert